Fossvélar hefjast handa við Hvammsvirkjun
Landsvirkjun og Fossvélar ehf. á Selfossi hafa samið um framkvæmdir vegna Hvammsvirkjunar. Fossvélar munu m.a. leggja veg að væntanlegu stöðvarhúsi og undirbúa plan undir vinnubúðir. Í þessum verkum felst upphaf eiginlegra virkjunarframkvæmda á svæðinu, en öll leyfi voru í höfn í lok október.
Alls bárust 6 tilboð í verkið og áttu Fossvélar lægsta tilboðið sem hljóðaði upp á 1,2 milljarða króna eða 74% af kostnaðaráætlun. Hæsta tilboð nam 105% af kostnaðaráætlun.
Í samningnum felst að Fossvélar leggja 3 km langan aðkomuveg inn á virkjunarsvæði Hvammsvirkjunar, þ.e. frá endurbættum Hvammsvegi sem lokið var við fyrr á árinu og að væntanlegu stöðvarhúsi. Efnið til vegagerðarinnar verður sótt í frárennslisskurð virkjunarinnar.
Þá munu Fossvélar einnig undirbúa vinnubúðaplan á jörð Landsvirkjunar, Hvammi 3, en þegar framkvæmdir standa sem hæst árið 2027 munu um 400 manns starfa þar.
Loks felst svo í samningnum að hefja framkvæmdir við fiskistiga. Fiskistigi og seiðafleyta greiða för göngufisks milli Hagalóns og árfarvegar neðan stíflu.
Fossvélar hefjast handa nú í desember, en áætluð verklok eru í nóvember á næsta ári.