Þegar orkan er uppseld
Öll starfsemi Landsvirkjunar miðast við það hlutverk að hámarka afrakstur af þeim orkulindum sem okkur er treyst fyrir, með sjálfbærni og hagkvæmni að leiðarljósi. Við höfum gert marga og misstóra samninga um afhendingu á orku sem taka mið af mögulegri orkuvinnslu í vinnslukerfinu okkar. Við verðum að standa við skuldbindingar okkar, en um leið reikna með náttúrulegum sveiflum í vatnsbúskapnum. Við búum við einstakar aðstæður, þar sem öll okkar raforka er unnin úr endurnýjanlegum orkugjöfum í einangruðu raforkukerfi.
Um þessar mundir er orkuvinnslukerfið okkar nýtt til hins ítrasta. Við náum þó að afhenda alla þá orku sem við höfum samið um, en við slíkar aðstæður koma hins vegar tímabil þar sem við náum ekki að afhenda öllum sem vilja alla þá orku sem óskað er eftir.
Slíkar skerðingar hafa átt sér stað undanfarin misseri og þær verða tíðari, nú þegar eftirspurn er með þeim hætti að í raun er hægt að tala um að orkan okkar sé uppseld. Viðskiptavinir okkar vita af skerðingarmöguleikum, enda er kveðið á um slíkt í samningum þeirra.