Undanfarið hefur verið lífleg umræða um þörf samfélagsins fyrir meiri orkuvinnslu. Kveikjan að þeirri umræðu var sú staðreynd að staðan í vatnsbúskap Landsvirkjunar er þröng um þessar mundir vegna lítils innrennslis til miðlunarlóna. Vinnslugetan er því að nokkru leyti skert frá því sem hún væri í meðalári og er það ástæða þess að fyrirtækið hefur þurft að grípa til takmarkana á afhendingu orku til tiltekinna viðskiptavina á undanförnum dögum. Við slíkar aðstæður er byrjað á því að skerða afhendingu á orku til fyrirtækja, sem hafa samið sérstaklega um að fá ódýra orku gegn því að sæta skerðingum þegar framboð er lítið.
Það er ekkert óeðlilegt við að slík staða komi upp í lokuðu raforkukerfi, sem er að stærstum hluta byggt upp af vatnsaflsvirkjunum þar sem breytileiki í úrkomu og afkomu jökla fyrir innrennsli í miðlunarlón getur verið mikill milli ára.
Spurningin sem við stöndum frammi fyrir sem samfélag er frekar sú hversu ásættanleg staðan er á sama tíma og þörf fyrir endurnýjanlega orku fer vaxandi hér á landi sem og um allan heim í þeirri viðleitni að draga úr jarðefnaeldsneyti og gera heiminn sjálfbærari.
Hagkvæm orkuskipti
Flestir, sem til máls hafa tekið, hafa gert sér grein fyrir að áskorunin sem við stöndum frammi fyrir er margþætt bæði til skamms og til langs tíma. Flutningskerfi raforku þarf að bæta og styrkja, en jafnframt þarf að gera ráð fyrir aukinni orku- og aflþörf í framtíðinni.
Í tilfelli fiskmjölsverksmiðjanna blasir við að rafvæðing þeirra er einhver hagkvæmustu orkuskipti sem möguleg eru. Verksmiðjurnar eru að reyna að hætta brennslu tugmilljóna lítra af olíu á hverri vertíð. Vissulega er breytileg orkunotkun þeirra áskorun, en hana má leysa og okkur ber skylda til þess að taka þátt í þeim orkuskiptum.
Fjölmörg önnur fyrirtæki á raforkumarkaði þurfa á sambærilegri þjónustu að halda frá Landsvirkjun og fiskmjölsverksmiðjurnar, þ.e. að kaupa fyrirvaralítið mikið magn af raforku, þegar truflanir verða á framleiðslu vegna bilana í virkjunum þeirra.
Verður ekki leyst með lokunum
Vaxandi orkuþörf samfélagsins er staðreynd. Það er hins vegar fjarri öllum raunveruleika að ætla sér að mæta þeirri auknu orkuþörf með því að treysta á að einhverjir stórnotendur orku loki og hverfi úr viðskiptum og þar myndist allt í einu borð fyrir báru. Jafnvel hafa ákveðin fyrirtæki verið ítrekað nefnd þar til sögunnar, þar á meðal viðskiptavinir Landsvirkjunar.
Vissulega hafa Landsvirkjun og stórir viðskiptavinir hennar tekist hart á um raforkusamninga í gegnum árin, enda gríðarlegir hagsmunir undir. Það er ekkert óeðlilegt við slíkt, en við höfum náð samningum sem báðir aðilar eru sáttir við. Stefna okkar er sem fyrr að styðja við núverandi og nýja viðskiptavini með áframhaldandi orkusölu og að þeir greiði raforkuverð sem er sambærilegt og gerist í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Vel rekið álver hér á landi, með eitt lægsta kolefnisspor sem þekkist, er líklegt til að standast harða samkeppni á alþjóðlegum mörkuðum til langrar framtíðar. Á meðan samningar nást sem veita Landsvirkjun ásættanlega arðsemi eru engin áform um að hætta raforkusölu til slíkra viðskiptavina.
Þarf meiri orku?
Spá um orkuþörf til framtíðar hlýtur alltaf að vera ákveðinni óvissu háð. Það er þó tiltölulega auðvelt að draga upp myndir sem byggja á reynslu og framtíðaráformum. Stefna stjórnvalda á hverjum tíma gefur okkur líka forsendur til spádóma. Hér á landi er spá um orkuþörf á höndum Orkustofnunar.
Orkuspárnefnd hennar birti uppfærða raforkuspá til ársins 2060 í október sl. Þar er byggt á mismunandi sviðsmyndum, en allar sýna þær fram á umtalsverða aukna orkuþörf, bæði til skemmri og lengri tíma.
Ein sviðsmyndin, sem nefnist „Græn framtíð,“ miðast við að helstu markmiðum stjórnvalda varðandi loftslagsmálin verði náð. Samkvæmt henni er gert ráð fyrir að til ársins 2030 muni aflnotkun á Íslandi aukast um tæp 480 MW. Þetta þýðir að það þurfi að meðaltali um 48 MW af afli árlega inn í kerfið til að uppfylla græna framtíð með tilheyrandi orkuskiptum.
Nefna má til sögunnar aðra ítarlega greiningu um orkuskipti sem fór fram á vegum Samorku árið 2020. Rétt er að taka fram að sú greining var gerð áður en stjórnvöld settu sér metnaðarfyllri markmið í loftslagsmálum um enn meiri samdrátt í losun fyrir 2030.
Samkvæmt greiningu Samorku þarf 300 MW til að skipta út nægilegu jarðefnaeldsneyti í samgöngum á landi fyrir hreina, innlenda orkugjafa til að standast skuldbindingar Parísarsamningsins. Ef horft er til þess að fara í full orkuskipti og skipta út öllu jarðefnaeldsneyti sem notað er innanlands í samgöngum, þ.e. í öllum bílum, skipum og flugvélum innanlands, þarf um 1200 MW.
Samkvæmt þessum ítarlegu og vönduðu greiningum Orkustofnunar og Samorku er augljós þörf fyrir meiri orku í náinni framtíð. Þrátt fyrir vilja allra til að bæta orkunýtni, huga að orkusparnaði, nýsköpun og snjallari lausnum, sem við eigum öll að stefna að, er staðreyndin sú að það verður ekki hjá því komist að huga að auknum fjárfestingum í innviðum, styrkingu flutningskerfis og aukinni orkuþörf.
Það þarf að tryggja orkuöryggi
Landsvirkjun, Landsnet, Orkustofnun, Samorka, Samtök iðnaðarins og fleiri aðilar hafa um langt árabil vakið athygli á margvíslegri þörf fyrir uppbyggingu orkuinnviða í samfélaginu.
Landsvirkjun hefur auk þess síðustu ár ítrekað komið því á framfæri við stjórnvöld að mikilvægt sé að það sé skýrt hvaða aðilar beri ábyrgð á því að upplýsa og tryggja að næg orka sé til staðar til að uppfylla þarfir samfélagsins. Samkvæmt gildandi raforkulögum er það hreinlega ekki skýrt hver ber ábyrgð á fullnægjandi framboði til heimila og smærri fyrirtækja í landinu. Mikil og góð vinna var unnin á síðasta kjörtímabili með nefnd um raforkuöryggi á heildsölumarkaði, orkustefnu og nú síðast breytingu á raforkulögum í vor. Eftir er að setja reglugerðir sem skýra ábyrgð og hlutverk Orkustofnunar varðandi orkuöryggi til lengri tíma og hvaða úrræði stofnunin getur gripið til.
Bygging virkjana tekur mörg ár
Við erum öll sammála um að mikilvægt sé að vanda til verka en það þarf líka að taka ákvarðanir. Aukin eftirspurn eftir orku byggist upp yfir langan tíma. Bygging virkjana tekur jafnframt langan tíma eða 4-5 ár eftir að löngu og vönduðu undirbúningsferli er lokið, en sá undirbúningur tekur a.m.k. 10-15 ár.
Frá árinu 2014 hefur Landsvirkjun gangsett þrjár nýjar aflstöðvar, aukið vinnslugetu í kerfi sínu með ýmsum aðgerðum og undirbúið framkvæmdir til að mæta þörf fyrir aukið afl og orku í framtíðinni. Raforkukerfið er nú full lestað og nokkuð sterkur vöxtur í eftirspurn líklegur á næstu árum. Ef Landsvirkjun ákveður að ráðast í Hvammsvirkjun, sem er sá virkjanakostur sem lengst er kominn í undirbúningi hjá fyrirtækinu, gæti hún í fyrsta lagi komist í rekstur á árunum 2026-2027.
Ef ekkert verður gert má búast við að eftirspurn raforku verði meiri en framboð sem í viðskiptum kallast skortur, fyrirtæki munu ekki fá þá orku sem þau telja sig þurfa, raforkuverð mun hækka og orkuskipti munu ganga hægar en ella.
Ísland óháð jarðefnaeldsneyti
Landsvirkjun finnur vel fyrir aukinni eftirspurn og ætlar sér hér eftir sem hingað til að mæta þörfum samfélagsins fyrir endurnýjanlega orku, hvort sem er til orkuskipta eða reksturs fjölbreyttra fyrirtækja og blómlegs atvinnulífs í landinu. Sú stefna er í samræmi við metnaðarfull markmið stjórnvalda um að Ísland nái kolefnishlutleysi og fullum orkuskiptum og verði þá óháð jarðefnaeldsneyti fyrst ríkja. Það er framtíðarsýn sem allir Íslendingar geta verið stoltir af.