Óskhyggja er ekki skjól
Við vinnum eins mikla raforku og virkjanir okkar og vatnsbúskapur framast leyfa. Nýjar virkjanir eru löngu klárar á teikniborðinu en þær skila ekki orku til samfélagsins fyrr en að nokkrum árum liðnum. Erfitt er að tímasetja það með vissu, þar sem þær velkjast enn í löngu og flóknu leyfisveitingaferli.
Við þessar aðstæður er raforkuöryggi heimilanna í landinu ógnað. Ekki bara heimilanna, heldur líka fyrirtækjanna sem kaupa raforku á sama markaði. Það eru öll smærri fyrirtæki landsins og um leið lang flest fyrirtæki og atvinnurekendur.
Ýmsir lýsa furðu á þessari stöðu. Hún kemur okkur hjá Landsvirkjun ekkert á óvart, enda höfum við árum saman varað við þessari atburðarás. Við sáum að eftirspurnin jókst sífellt á sama tíma og leyfisveitingaferli nýrra virkjana, sem alltaf hefur verið langt og tyrfið, varð enn tímafrekara og flóknara. Við bentum á að orkuvinnslan gæti ekki mætt eftirspurn eftir rafmagni fyrir eðlilegan vöxt atvinnulífsins og margboðuð orkuskipti.