Öryggi umfram allt
Við seljum alla raforku sem við framleiðum og eftirspurnin eykst sífellt. Raforkuvinnslan okkar er stærsti aflgjafi samfélagsins og Landsvirkjun, orkufyrirtæki þjóðarinnar, skilar þjóðinni árlega umtalsverðum arði af orkuauðlindinni. Fyrirtækið er nánast skuldlaust og stendur vel að vígi fyrir þá óhjákvæmilegu uppbyggingu sem fram undan er. Þar hljótum við að leggja höfuðáherslu á að heimili og smærri fyrirtæki, sem geta ekki keppt um raforkuna við stórfyrirtæki, njóti áfram öruggrar orku.
Stærstu viðskiptavinir Landsvirkjunar hafa lengi verið traustar stoðir efnahagslífsins. Orkuskiptin hafa í för með sér að flestar aðrar atvinnugreinar munu reiða sig jafn mikið á raforkuvinnsluna og stóriðjan. Ferðaþjónustan verður rafknúin og sjávarútvegurinn knúinn grænni orku rétt eins og aðrir hlutar atvinnulífsins. Við verðum að auka raforkuvinnsluna til að mæta þessum þörfum og við verðum að gera það á þann veg að hvorki bitni á heimilum né smærri fyrirtækjum.