Byggjum orkuöryggi á staðreyndum
Sterkar vísbendingar eru um að orkuöryggi almenna markaðarins verði ógnað á árunum 2024-2026. Því upplýsti Landsvirkjun stjórnvöld um stöðuna síðastliðið haust og kallaði eftir því að þau létu greina hana. Íslendingum er að fjölga og það er hagvöxtur í landinu. Orkuþörfin á almenna markaðnum vex því um 2-3% á ári. Nú bregður hins vegar svo við að pantanir á orku í byrjun árs 2024 eru tífalt meiri, eða sem nemur 25% vexti.
Landsvirkjun hefur undanfarinn áratug bent stjórnvöldum á að tryggja þurfi orkuöryggi almenna markaðarins. Hann situr ekki við sama borð og stórnotendur sem tryggt hafa sér raforku með langtímasamningum. Með lögum nr. 71/2021 um breytingu á raforkulögum nr. 65/2003 var bætt við ákvæðum um raforkuöryggi, sem síðar yrði útfært í reglugerð. Í gangi er vönduð vinna af hálfu stjórnvalda við útfærslu á reglugerðinni með aðkomu erlendra ráðgjafa og víðtæks samráðs við hagsmunaaðila.