Jú, það er ástæða til að hafa áhyggjur af næstu árum
„Raforkuöryggi felst í að notendur hafi aðgang að raforku þegar hennar er þörf og þar sem hennar er þörf, með hliðsjón af almennri stefnumörkun stjórnvalda á hverjum tíma og skilgreindum áreiðanleika og gæðum. Viðmið fyrir fullnægjandi raforkuöryggi skulu nánar útfærð og skýrð í reglugerð sem ráðherra setur.“
Þessi skilgreining á raforkuöryggi var sett inn í raforkulög árið 2021. Þá höfðu stjórnvöld áttað sig á nauðsyn þess að taka af skarið um þetta mikilvæga atriði, sem hafði verið óskýrt allt frá setningu raforkulaga árið 2003.
Unnið er að því að skýra þessi nauðsynlegu viðmið um raforkuöryggi og hvernig fara skuli með eftirfylgni og ábyrgð í íslenska raforkukerfinu. Árið 2022 skilaði vinnuhópur tillögum að reglugerð sem nú eru til frekari skoðunar. Enn virðist vera nokkuð í land að skýrar tillögur komi fram. Þá er mögulegt að byggja þurfi sérstakar virkjanir til að sinna raforkuöryggi sem þýðir að reglugerðin gæti fyrst tekið gildi eftir 3-4 ár þegar þær hafa verið reistar.
Eftir breytingarnar á raforkulögunum 2021 er ljóst að ábyrgð á raforkuöryggi liggur hjá stjórnvöldum. Aðilar á markaði eru ekki á eitt sáttir um hvort orkuöryggi almenna markaðarins sé ógnað og hvort stjórnvöld ættu að bregðast við.