Fréttavakt
Landsvirkjun hefur um árabil unnið að undirbúningi fyrirhugaðrar virkjunarinnar á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu. Virkjunin mun nýta fall Þjórsár neðan Búrfellsvirkjunar, frá Yrjaskeri rétt ofan við bæinn Haga og niður fyrir Ölmóðsey austan við Þjórsárholt.
Nýjustu fréttir verkefninu má sjá í fréttavakt hér fyrir neðan.
Fréttavakt Hvammsvirkjunar
Velkomin á vaktina! Hér fyrir neðan getur þú nálgast allar nýjustu fréttir og reglulegar uppfærslur um stöðu mála og framvindu verkefnisins.
Auglýst eftir gistikostum
Landsvirkjun þarf að útvega starfsfólki sínu og verktökum gistingu á næstu misserum og árum, í tengslum við miklar framkvæmdir á starfssvæði okkar við Búrfell. Þess vegna auglýsum við nú útboð á gistiþjónustu og boðum til kynningarfunda í Árnesi og Stracta miðvikudaginn 29. janúar.
Hugsanlegar tafir á framkvæmdum
Framkvæmdir við Hvammsvirkjun gætu tafist um ófyrirséðan tíma, í kjölfar þess að Héraðsdómur Reykjavíkur felldi virkjunarleyfi hennar úr gildi. Landsvirkjun hefur ákveðið að áfrýja dóminum og óska eftir að málið fari beint til Hæstaréttar. Þá hefur umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra boðað frumvarp sem greiði fyrir framkvæmdum við Hvammsvirkjun og komi í veg fyrir frekari tafir. Áfram verður skýrt frá stöðunni á þessari síðu eftir því sem málum vindur fram.
Forsendur dóms Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 15. janúar eru að Umhverfisstofnun hafi skort lagastoð til að heimila breytingu á vatnshloti Þjórsár og því geti virkjunarleyfið ekki staðið. Við innleiðingu vatnatilskipunar Evrópusambandsins hafi löggjafinn í raun gert Umhverfisstofnun ókleift að veita heimild til breytingar á vatnshloti fyrir byggingu vatnsaflsvirkjana og þar með sé ekki hægt að gefa út virkjunarleyfi.
Hvammsvirkjun verður byggð
Við hjá Landsvirkjun erum sannfærð um að Hvammsvirkjun verður byggð, enda hefur stuðningur við það á Alþingi og í samfélaginu almennt líklega aldrei verið meiri. Við höfum vandað mjög til allra verka á öllum stigum undirbúnings virkjunarinnar, sem er eflaust mest og best rannsakaða verkefni á landinu.
Áætlanir okkar gerðu ráð fyrir að hverflar Hvammsvirkjunar færu að snúast síðla árs 2029 en svo gæti farið að sú dagsetning standist ekki. Seinkun verkefnisins mun hafa mjög neikvæðar afleiðingar fyrir vöxt og viðgang samfélagsins, enda er staðan í raforkukerfinu þegar orðin mjög þröng og þar mun enn herða að á næstu árum.
Landsvirkjun áfrýjar dómi héraðsdóms
Landsvirkjun hefur ákveðið að áfrýja dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 15. janúar sl. þar sem virkjunarleyfi Hvammsvirkjunar var fellt úr gildi og óska eftir því að málið fari beint til Hæstaréttar.
Héraðsdómur fellir virkjunarleyfi úr gildi
Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði í dag að virkjunarleyfi Hvammsvirkjunar skyldi fellt úr gildi. Dómarinn telur að Umhverfisstofnun hafi skort lagastoð til að heimila breytingu á vatnshloti og því geti virkjunarleyfið ekki staðið.
Rafdreifistöð sett upp
Á dögunum var sett upp rafdreifistöð á vinnubúðasvæðið við Hvamm - í köldu en fallegu veðri.
Hreinn Hjartarson verkefnisstjóri hjá nýframkvæmdum var með drónann á lofti og smellti af:
Fossvélar hefjast handa við Hvammsvirkjun
Landsvirkjun og Fossvélar ehf. á Selfossi hafa samið um framkvæmdir vegna Hvammsvirkjunar. Fossvélar munu m.a. leggja veg að væntanlegu stöðvarhúsi og undirbúa plan undir vinnubúðir. Í þessum verkum felst upphaf eiginlegra virkjunarframkvæmda á svæðinu, en öll leyfi voru í höfn í lok október.
Yfirgripsmikil grein um framkvæmdaverkefni
Það er óhætt að mæla með lestri greinarinnar hér fyrir neðan. Hún birtist í fjölmiðlum í vikunni, en í henni er farið yfir allar framkvæmdir sem framundan eru hjá okkur á Suðurlandi.
Þar kemur meðal annars fram að þegar mest verður að gera í Hvammsvirkjun, Búrfellslundi og Sigöldu verða 650 manns á verkstað!
Ærin verkefni næstu ár
Grein eftir Ásbjörgu Kristinsdóttur, framkvæmdastjóra Framkvæmda hjá Landsvirkjun, um þau viðamiklu verkefni sem framundan eru á Suðurlandi.
Kynningarfundir í Árnesi og Landhóteli
Landsvirkjun og Vegagerðin héldu kynningarfundi fyrir íbúa Rangárþings ytra og Skeiða- og Gnúpverjahrepps síðastliðinn þriðjudag og miðvikudag. Þar sögðu fulltrúar Landsvirkjunar og Vegagerðarinnar frá framkvæmdum sem framundan eru í tengslum við byggingu Hvammsvirkjunar og Búrfellslundar við Vaðöldu. Fundirnir voru vel sóttir og margt skrafað í kaffispjalli eftir þá.
Framkvæmdamolar í nóvember
Á þessu ári hefur verið unnið við ýmsar verklegar framkvæmdir vegna undirbúnings Hvammsvirkjunar. Sigurður Óli Guðmundsson, verkefnisstjóri hjá Nýframkvæmdum, fer yfir það helsta:
Endurbætur á núverandi Hvammsvegi
Í sumar vann Vegagerðin í samvinnu við Landsvirkjun að endurbótum á núverandi Hvammsvegi, frá Landsvegi og að lóðarmörkum við Hvamm 1, alls um tæpilega 3 km langan vegkafla. Var vegurinn breikkaður lítillega, styrktar- og burðalag endurnýjað og vegurinn lagður klæðningu. Lauk framkvæmdinni á haustmánuðum og var verktaki Þjótandi.
Útjöfnun og upphaf á akstri í vinnubúðapúða Landsvirkjunar í Hvammi 3
Vinnubúðir Hvammsvirkjunar verða í landi Hvamms 3, sem er jörð í eigu Landsvirkjunar. Búðirnar verða á tæplega 5 ha svæði. Þar munu búa um 400 einstaklingar þegar mest lætur. Vinnubúðapúðinn hefur verið jafnaður og keyrt í hann um 30.000 rúmmetrum af efni nú í haust, verkið verður svo klárað í verkinu HVM-01, Vegagerð, efnisvinnsla og lagnir sem nýlega var boðið út. Verktakar sem unnu að þessu voru Landefni, Þjótandi og VBF-Mjölnir.
Lagning vatnsveitu fyrir vinnubúðir í Hvammi 3
Í tengslum við fyrirhugaðar vinnubúðir þarf að afla neyslu- og brunavatns. Á síðasta ári voru boraðar tvær vatnsholur í landi Hvamms 3 og nú er verið að leggja vatnsveitu og setja upp birgðatanka. Er verkið að klárast þessa dagana. Verktaki er Berg verktakar.
Skrifstofuaðstaða og endurbætur á núverandi íbúðarhúsnæði í Hvammi 3
Útbúin hefur verið skrifstofuaðstaða í gömlum sumarbústað í landi Hvamms 3, var hann endurnýjaður að innan og breytt þannig að þar eru nú 4 starfsstöðvar auk fundarrýmis. Þá eru hafnar endurbætur á íbúðarhúsinu í Hvammi 3 þannig að hægt verði að nota það fyrir starfsfólk á framkvæmdartíma. Verktakar sem unnið hafa við þetta eru Tré og Straumur og Fjórir Naglar.
Rif og tiltekt í Hvammi 3
Farið var í mikla hreinsun og tiltekt á jörð Landsvirkjunar í landi Hvamms 3. Verktaki var Egill Jóhannsson.
Girðingarvinna
Unnið hefur verið að endurnýjun á ýmsum girðingum sem tengjast okkar verkefnum og fylgir þegar gerðum samningum. Ýmsir verktakar hafa komið að þessari vinnu.
Raf- og fjarskiptavæðing
Unnið hefur verið að raf- og fjarskiptavæðingu fyrir svæðið um tíma. Rarik hefur lagt rafstreng frá aðveitustöð á Hellu að vinnubúðasvæði og verið er að leggja rafstrengi inn að vinnubúðum og áfram inn á virkjanasvæði. Auk þessa eru lagðar raf- og fjarskiptalagnir frá Búrfelli og niður að Hvammi sem einnig mun þjóna framkvæmdinni og stöðinni til frambúðar. Áætlað er að sú vinna klárist á næstu mánuðum. Verktakar sem unnið hafa við þetta eru Orkufjarskipti, Þjótandi, Nesey og Heflun.
Látum verkin tala
Hér fyrir neðan er hægt að horfa á fróðlegt erindi sem Ásbjörg Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri Framkvæmda, hélt á haustfundi Landsvirkjunar 30. október 2024.
Þar var farið yfir aðdraganda, umfang og skipulag þeirra viðamiklu framkvæmda sem fram undan eru næstu árin á Þjórsársvæði.
Öll leyfi í höfn!
Við birtum ánægjuleg tíðindi nú rétt áðan á vefnum okkar - sjá frétt hér fyrir neðan:
Öll leyfi fyrir Hvammsvirkjun í höfn
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps hefur samþykkt að gefa út framkvæmdaleyfi fyrir Hvammsvirkjun í Þjórsá. Áður hafði sveitarstjórn Rangárþings ytra samþykkt framkvæmdaleyfi fyrir sitt leyti. Þar með liggja öll leyfi fyrir til að hefja virkjunarframkvæmdir.
Rangárþing ytra samþykkir framkvæmdaleyfi
Sveitarstjórn Rangárþings ytra samþykkti á fundi sínum í morgun að gefa út framkvæmdaleyfi fyrir Hvammsvirkjun. Skeiða- og Gnúpverjahreppur þarf einnig að samþykkja framkvæmdaleyfi, en vonir standa til að það verði innan skamms.
Nánar má lesa um afgreiðslu málsins í fundargerð fundarins.
Megum við hóa í þig?
Nýverið auglýstum við eftir því að komast í samband við minni fyrirtæki, einyrkja eða einstaklinga sem gætu tekið að sér ýmis tilfallandi verkefni með skömmum fyrirvara á athafnasvæði okkar á Suðurlandi. Viðbrögðin hafa verið feykigóð og margar skráningar borist - en við erum alveg til í fleiri.
Staða mála í september 2024
Vegagerðin hefur unnið að endurbótum á núverandi Hvammsvegi í sumar og styttist í að ráðist verði í lagningu nýs Búðafossvegar og -brúar. Orkustofnun gaf út virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun 12. september 2024 og þá þarf aðeins að bíða framkvæmdaleyfis frá sveitarfélögunum tveimur, Rangárþingi ytra og Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Þegar öll leyfi eru í höfn verða gerðar breytingar á Þjórsárdalsvegi og Gnúpverjavegi þar sem hluti þessara vega fer undir lónstæði en þessar framkvæmdir hefjast væntanlega ekki fyrr en síðsumars 2025.
Þegar öll leyfismál hafa klárast mun Landsvirkjun hefja ýmsar undirbúningsframkvæmdir. Gerður verður nýr aðkomuvegur í framhaldi af núverandi Hvammsvegi, það þarf að leggja grunn að vinnubúðum og leggja veitukerfi fyrir þær og framkvæmdasvæðið allt.
Einnig verður byrjað á frárennslisskurði en efni úr honum verður m.a. nýtt í vegagerð.
Virkjunarleyfi komið í hús
Orkustofnun gaf í dag út virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun í Þjórsá. Í kjölfarið sækir Landsvirkjun um framkvæmdaleyfi til bæði Rangárþings ytra og Skeiða- og Gnúpverjahrepps, en mannvirki tengd virkjuninni verða í báðum sveitarfélögunum. Enn er stefnt að því að Hvammsvirkjun taki til starfa fyrir árslok 2028.
Nýjar myndir af Hvammsvirkjun
Við vorum að setja inn nýjar tölvugerðar myndir af Hvammsvirkjun og helstu mannvirkjum, t.d. stöðvarhúsi, inntaki og flóðlokum inn á myndasíðuna okkar.
Tiltekt í fullum gangi
Þessa dagana stendur yfir tiltekt í húsunum í Hvammi 3. Eitt af stærri málum sem tiltekin eru í áhættumati verksins var fjarlæging asbests. Verktaki er með sérfræðinga á sínum snærum til að sinna þeirri vinnu. Alls voru um 680kg af asbesti í tveimur byggingum og hefur það verið fjarlægt og því verið fargað.
Niðurrif bygginga hefst í byrjun júní. Verklok eru 1. september á þessu ári.
Staða mála í febrúar 2024
Ýmsar framkvæmdir fara af stað í tengslum við Hvammsvirkjun í vor eða sumar að öllu óbreyttu. Vegagerðin hefst þá handa við endurbætur á núverandi Hvammsvegi og ráðist verður í lagningu nýs Búðafossvegar og -brúar þegar ljóst verður að leyfisferli fyrir virkjun er komið í höfn. Í þriðja lagi verða gerðar breytingar á Þjórsárdalsvegi og Gnúpverjavegi þar sem hluti þessara vega fer undir lónstæði en þær framkvæmdir hefjast væntanlega ekki fyrr en síðsumars 2025.
Undirbúningsframkvæmdir Landsvirkjunar vegna virkjunarinnar hefjast einnig í sumar ef öll leyfismál klárast. Gerður verður nýr aðkomuvegur í framhaldi af núverandi Hvammsvegi, það þarf að leggja grunn að vinnubúðum og leggja veitukerfi fyrir þær og framkvæmdasvæðið allt.
Einnig verður byrjað á frárennslisskurði til að hægt sé að nýta efni þaðan í vegagerð. Þessar framkvæmdir geta ekki hafist fyrr en framkvæmdaleyfi fyrir virkjun liggur fyrir, en þær gæti þurft að bjóða út fyrr, með tilheyrandi fyrirvörum.
Við erum tilbúin að hefjast handa og vonum að hverflarnir verði farnir að snúast í Hvammsvirkjun fyrir árslok 2028, samfélaginu öllu til heilla.