Vinland Power tekur til starfa í Kanada

06.03.2025Fyrirtækið

Landsvirkjun Power og Growler Energy hafa stofnað félag um verkefnaþróun á sviði endurnýjanlegra orkugjafa sem fengið hefur nafnið Vinland Power. Fyrirtækið hefur aðsetur í kanadíska fylkinu Nýfundnalandi og Labrador.

F.v. Jenny Hill, sendiherra Kanada á Íslandi, Ríkarður Ríkarðsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar og nýsköpunar hjá Landsvirkjun; Robert Woolgar, framkvæmdastjóri Growler Energy og Andrew Parsons, iðnaðar-, orku-, og tæknimálaráðherra Nýfundnalands og Labrador
F.v. Jenny Hill, sendiherra Kanada á Íslandi, Ríkarður Ríkarðsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar og nýsköpunar hjá Landsvirkjun; Robert Woolgar, framkvæmdastjóri Growler Energy og Andrew Parsons, iðnaðar-, orku-, og tæknimálaráðherra Nýfundnalands og Labrador

Vinland Power tekur til starfa í Kanada

Verkefnaþróunarfélaginu Vinland Power er ætlað að verða leiðandi í þróun orkuvinnslu á svæðinu, þá helst í vatns- og vindafli. Unnið verður með fjárfestingarfélagi frumbyggja á svæðinu, Qalipu Holdings, og sveitarfélögum á svæðinu, en það tryggir mikilvæga aðkomu hagsmunaaðila og samfélaga á þeim svæðum sem verkefni á vegum félagsins ná til.

Landsvirkjun Power er dótturfyrirtæki Landsvirkjunar, orkufyrirtækis þjóðarinnar, en erlend starfsemi Landsvirkjunar er innan vébanda þess. Félagið býr að mikilli þekkingu Landsvirkjunar á orkuöflun á norðurslóðum og víðar. Undanfarinn áratug hefur fyrirtækið komið að ráðgjöf í 40 verkefnum í 15 löndum og verkefnaþróun í Georgíu, Kanada og á Grænlandi.

Growler Energy er orkufyrirtæki á sviði endurnýjanlegrar orku og eru höfuðstöðvar þess í St. John, höfuðborg Nýfundnalands og Labradors. Landsvirkjun Power og Growler Energy hafa starfað saman að ýmsum verkefnum á undanförnum árum.

Aðild heimafólks

Fyrir skömmu luku Landsvirkjun Power og Growler þátttöku í tilraunaverkefni með félagi frumbyggja, NNC, um uppbyggingu vindorkuvers með rafhlöðugeymslukerfi í Nunavut í Kanada, en tilgangur þess var að draga úr notkun samfélagsins Sanikiluaq á díselolíu til orkuframleiðslu. NNC hefur nú tekið við áframhaldi verkefnisins.

Aðild frumbyggja, samfélagsþátttaka, sérfræðiþekking í orkumálum sem og staðarþekking í Nýfundnalandi og Labrodor styður enn frekar við framþróun raforkukerfisins á svæðinu sem rekið er að mestu á endurnýjanlegum orkugjöfum og stendur framarlega á heimsvísu.

Skráning á póstlista

Skráðu þig á póstlista Landsvirkjunar. Við sendum reglulega út tölvupósta um viðburði og orkumál auk nýjustu frétta af fyrirtækinu.

Aðrar fréttir