Vinland Power tekur til starfa í Kanada
Verkefnaþróunarfélaginu Vinland Power er ætlað að verða leiðandi í þróun orkuvinnslu á svæðinu, þá helst í vatns- og vindafli. Unnið verður með fjárfestingarfélagi frumbyggja á svæðinu, Qalipu Holdings, og sveitarfélögum á svæðinu, en það tryggir mikilvæga aðkomu hagsmunaaðila og samfélaga á þeim svæðum sem verkefni á vegum félagsins ná til.
Landsvirkjun Power er dótturfyrirtæki Landsvirkjunar, orkufyrirtækis þjóðarinnar, en erlend starfsemi Landsvirkjunar er innan vébanda þess. Félagið býr að mikilli þekkingu Landsvirkjunar á orkuöflun á norðurslóðum og víðar. Undanfarinn áratug hefur fyrirtækið komið að ráðgjöf í 40 verkefnum í 15 löndum og verkefnaþróun í Georgíu, Kanada og á Grænlandi.
Growler Energy er orkufyrirtæki á sviði endurnýjanlegrar orku og eru höfuðstöðvar þess í St. John, höfuðborg Nýfundnalands og Labradors. Landsvirkjun Power og Growler Energy hafa starfað saman að ýmsum verkefnum á undanförnum árum.