Traustur rekstur við krefjandi aðstæður

21.02.2025Fjármál

Ársreikningur Landsvirkjunar fyrir árið 2024 hefur verið birtur. Fjárhagsstaða fyrirtækisins er sterkari en nokkru sinni áður. Stjórn fyrirtækisins hyggst leggja til að arður til ríkisins verði 25 milljarðar kr. í ár.

Traustur rekstur við krefjandi aðstæður

Sjá ársreikning 2024

Hagnaður af grunnrekstri Landsvirkjunar á síðasta ári nam 41,5 milljörðum króna, eða tæplega 301 milljón dollara.

Fjárhagsstaða fyrirtækisins er sterkari en nokkru sinni áður, eiginfjárhlutfall er 66,2% og skuldsetning 1,6x rekstrarhagnaður fyrir afskriftir.

Stjórn fyrirtækisins hyggst leggja til að arður til ríkisins verði 25 milljarðar kr. í ár.

Samanlagður arður vegna rekstraráranna 2021 til 2024 nemur því um 90 milljörðum kr.

Hörður Arnarson, forstjóri:

Helstu upplýsingar úr ársuppgjöri 2024

„Rekstur Landsvirkjunar gekk áfram vel á árinu 2024, þótt afkoman hafi ekki jafnast á við metárið 2023. Aðstæður voru krefjandi á árinu, vatnsbúskapur sögulega lakur, sem leiddi til þess að tekjur drógust saman vegna minni raforkusölu. Þá urðu breytingar á verðtengingu í samningi við stórnotanda, auk þess sem innleystar áhættuvarnir lækkuðu frá fyrra ári. Afkoman var því vel ásættanleg miðað við aðstæður. Fjárhagsleg staða fyrirtækisins hefur aldrei verið betri og þar með bolmagn þess til þess að setja þann kraft í orkuöflun sem er nauðsynlegur til að mæta þörfum íslensks samfélags.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar

Á árinu 2024 hófust loks framkvæmdir við 120 MW Búrfellslund og 95 MW Hvammsvirkjun, eftir ítrekaðir tafir í leyfisveitingaferlinu. Þessar nýju virkjanir mæta brýnni þörf fyrir frekari raforku til að mæta orkuskiptum og vexti samfélagsins. Afar mikilvægt er að ekki verði frekari tafir á framgangi þessara verkefna. Á árinu 2025 áformum við einnig að hefja framkvæmdir við stækkun Þeistareykja- og Sigöldustöðvar. Aldrei áður hefur fyrirtækið unnuð að fernum nýframkvæmdum á sama tíma, með þremur mismunandi orkugjöfum.

Mikið reyndi á innviði Landsvirkjunar við þær erfiðu aðstæður sem ríktu á síðasta ári vegna mikillar eftirspurnar og sögulega lítils innrennslis til lóna. Álag var mikið á starfsfólk, sem og þau kerfi og verklag sem þróuð hafa verið innan fyrirtækisins. Það var mjög ánægjulegt að sjá hversu vel tókst að takast á við þessar krefjandi aðstæður og standa við allar skuldbindingar fyrirtækisins.“

Rekstur

Rekstrartekjur lækka á milli ára frá methæðum árið 2023 en eru þó sterkar í sögulegu samhengi. Hér vega þyngst áhrif innleystra áhættuvarna en krefjandi vatnsbúskapur varð einnig til þess að skerða þurfti afhendingu raforku til stórnotenda með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á raforkusölu.

Hagnaður af grunnrekstri (hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði) lækkar samhliða tekjum en er þó ásættanlegur miðað við aðstæður.

Efnahagur

Fjárhagsstaða fyrirtækisins heldur áfram að styrkjast með lækkandi skuldum og hækkandi eiginfjárhlutfalli, sem undirstrikar sterka fjárhagsstöðu nú þegar fyrirtækið stefnir á framkvæmdir við nýja virkjunarkosti.

Sjóðstreymi

Fjármunamyndun fyrirtækisins (handbært fé frá rekstri) var um 270 m. USD á árinu og lækkar um 35% á milli ára. Þrátt fyrir þessa lækkun er þessi mælikvarði sterkur í sögulegu samhengi.

Flokkunarreglugerð

Reglugerðin krefur fyrirtæki um að birta upplýsingar um hlutfall af tekjum, fjárfestingum og rekstrargjöldum í starfsemi sem uppfyllir skilyrði um umhverfislega sjálfbærni. Til að uppfylla þær kröfur þarf starfsemin að teljast hæf (e. eligible) og samræmd (e. aligned). Atvinnustarfsemin þarf að stuðla verulega að einu eða fleiri umhverfismarkmiðum, en um leið ekki vinna gegn öðrum markmiðum og hlíta tæknilegum matsviðmiðum. Atvinnustarfsemin þarf einnig að vera í samræmi við lágmarksverndarráðstafanir á sviði mannréttinda og stjórnarhátta.

Öll raforkuvinnsla fyrirtækisins; úr vatnsafli, jarðvarma og vindorku, telst verulegt framlag til mótvægis við loftslagsbreytingar. Þá þykir sýnt fram á að orkuvinnslan valdi ekki umtalsverðu tjóni á öðrum umhverfismarkmiðum, þ.e. um aðlögun að loftslagsbreytingum, líffræðilega fjölbreytni, hringrás auðlinda, sjálfbærni vatns- og sjávarauðlinda og mengunarvarnir.

Skráning á póstlista

Skráðu þig á póstlista Landsvirkjunar. Við sendum reglulega út tölvupósta um viðburði og orkumál auk nýjustu frétta af fyrirtækinu.

Aðrar fréttir