Kristín Linda Árnadóttir aðstoðarforstjóri fór yfir hvernig Landsvirkjun hefur tekist að vera góður granni á starfssvæðum sínum og hvaða áform eru uppi. Hún sagði fyrirtækið hafa að leiðarljósi að nærsamfélag aflstöðva nyti ávinnings af starfseminni, lögð væri áhersla á að styðja við málefni og verkefni sem hefðu jákvæð samfélagsáhrif, einnig á uppbyggileg samskipti og samvinnu og um leið vildi Landsvirkjun stuðla að orkutengdri nýsköpun og vera leiðandi afl í samfélaginu.
Landsvirkjun væri víða stærsti skattgreiðandi sveitarfélaga þar sem aflstöðvar fyrirtækisins væru, starfaði með nærsamfélaginu að t.d. brunavörnum og kæmi að mörgum skemmtilegum verkefnum eins og Eimi á Norðurlandi, Orkídeu á Suðurlandi, Bláma á Vestfjörðum og Eygló á Austurlandi.
Kristín Linda sagði að Landsvirkjun hefði víða komið að uppbyggingu innviða og tók sem dæmi vegagerð. Á undanförnum 60 árum hefði Landsvirkjun lagt um 650 km af vegum og slóðum. Sú vegalengd jafngildir hálfum hringveginum, eða akstri frá Reykjavík norðurleiðina til Egilsstaða.
Þá rakti Kristín Linda niðurstöður kannana sem Gallup vann fyrir Landsvirkjun. Þar kemur fram að rúmlega 76% landsmanna telja virkjanir Landsvirkjunar hafa haft jákvæð áhrif á íslenskt samfélag og 63% segjast hlynnt frekari virkjanaframkvæmdum. Kristín Linda sagði þetta gríðarlega mikilvægar upplýsingar fyrir orkufyrirtæki í eigu þjóðarinnar.
Þegar fólk sem býr í nærsamfélagi virkjana er spurt er ánægjan enn meiri. Þar eru 78-85% aðspurðra á því að virkjanirnar hafi haft jákvæð áhrif á nærsamfélagið.
Erlendir ferðamenn eru mjög sáttir við græna orkuvinnslu á Íslandi. 96% höfðu orðið vör við orkuvinnslu á ferðum sínum um landið og sama hlutfall segist jákvætt. Þrír af hverjum fjórum sögðu orkuvinnsluna hafa haft jákvæð áhrif á upplifun sína af íslenskri náttúru. Kristín Linda sagði niðurstöðurnar sýna skýrt að ferðaþjónusta og orkuvinnsla ættu ágæta samleið.
Að lokum lagði aðstoðarforstjórinn áherslu á að nærsamfélög þyrftu að njóta afraksturs orkuvinnslu heima í héraði í auknum mæli.