Staða mála vegna Hvammsvirkjunar
Ýmsar framkvæmdir fara af stað í tengslum við Hvammsvirkjun í vor eða sumar að öllu óbreyttu. Vegagerðin hefst þá handa við endurbætur á núverandi Hvammsvegi og ráðist verður í lagningu nýs Búðafossvegar og -brúar þegar ljóst verður að leyfisferli fyrir virkjun er komið í höfn. Í þriðja lagi verða gerðar breytingar á Þjórsárdalsvegi og Gnúpverjavegi þar sem hluti þessara vega fer undir lónstæði en þær framkvæmdir hefjast væntanlega ekki fyrr en síðsumars 2025.
Undirbúningsframkvæmdir Landsvirkjunar vegna virkjunarinnar hefjast einnig í sumar ef öll leyfismál klárast. Gerður verður nýr aðkomuvegur í framhaldi af núverandi Hvammsvegi, það þarf að leggja grunn að vinnubúðum og leggja veitukerfi fyrir þær og framkvæmdasvæðið allt.
Einnig verður byrjað á frárennslisskurði til að hægt sé að nýta efni þaðan í vegagerð. Þessar framkvæmdir geta ekki hafist fyrr en framkvæmdaleyfi fyrir virkjun liggur fyrir, en þær gæti þurft að bjóða út fyrr, með tilheyrandi fyrirvörum.
Við erum tilbúin að hefjast handa og vonum að hverflarnir verði farnir að snúast í Hvammsvirkjun fyrir árslok 2028, samfélaginu öllu til heilla.