Landsnet endurgreiðir Landsvirkjun 2,4 milljarða króna

15.01.2025Viðskipti, Fjármál

Landsnet endurgreiðir Landsvirkjun

Landsnet endurgreiðir sex raforkuframleiðendum samtals um þrjá milljarða króna í dag vegna svokallaðs innmötunargjalds, þar af Landsvirkjun 2,4 milljarða. Gjaldið var hluti af flutningsgjöldum Landsnets og var lagt á í byrjun árs 2022. Það var innheimt í 18 mánuði, fram til september 2023. Hæstiréttur Íslands úrskurðaði gjaldtökuna ólögmæta 5. júní sl. og staðfesti þar með niðurstöðu fyrri dómstiga.

Landsvirkjun endurgreiðir viðskiptavinum sínum í dag þá upphæð sem rukkuð var á tímabilinu sem innmötunargjaldið var innheimt. Viðskiptavinum okkar hefur verið tilkynnt um endurgreiðsluna og jafnframt að hér sé einungis um að ræða höfuðstól, því enn er verið að semja um vaxtagreiðslur.

Gjaldinu mótmælt frá upphafi

Landsvirkjun mótmælti gjaldtöku Landsnets frá upphafi og taldi að ekki væru lagalegar forsendur fyrir henni. Í samningum við stórnotendur er almennt kveðið á um að raforkukaupandi beri ábyrgð á greiðslu flutningsgjalda. Með tilkomu innmötunargjalds færðist hluti flutningskostnaðar frá stórnotendum til Landsvirkjunar. Gjaldskrá flutningsgjalda hefur nú verið færð aftur til fyrra horfs.