Endurkaupum hætt vegna batnandi stöðu
Þrír blotakaflar í vetur og þær vatnssparandi aðgerðir sem gripið hefur verið til hafa bætt vatnsbúskap Landsvirkjunar. Nú er svo komið að staða Þórisvatns er ívið betri en á sama tíma í fyrra, en vatnsárið byrjaði í sögulegu lágmarki. Staðan er enn vel undir meðallagi, en hefur þó skánað það mikið að ekki telst ástæða til að halda áfram endurkaupum af járnblendiverksmiðju Elkem á Grundartanga, eins og heimild er til í samningi fyrirtækisins við Landsvirkjun.
Í desember var ákveðið að virkja endurkaupaákvæði í samningum Elkem og var þá reiknað með að endurkaup stæðu fram í byrjun febrúar hið minnsta. Það var síðasta vatnssparandi úrræði sem Landsvirkjun hafði yfir að ráða og jafnframt það kostnaðarsamasta. Það er því ánægjulegt að geta nú hætt þeim kaupum.
Landsvirkjun hóf skerðingar til stórnotenda á suðvesturhluta landsins hinn 24. október sl. Þær verða óbreyttar áfram, enda vatnsbúskapur syðra enn með þeim hætti að skerðinga er þörf.