Aflþjónusta tekur við á nýju ári

09.01.2025Viðskipti

Aflþjónusta tekur við á nýju ári

Aflþjónusta hefur nú tekið endanlega við hjá viðskiptavinum Landsvirkjunar, í stað þess sem áður kallaðist breytileg orka. Landsvirkjun kynnti þessa nýju þjónustu sl. sumar.

Orkufyrirtæki þjóðarinnar á og rekur allar stærstu vatnsaflsvirkjanir landsins auk jarðvarmavirkjana á Norðausturlandi. Við leggjum okkur fram um að nýta auðlindirnar eins vel og kostur er bæði til lengri og skemmri tíma. Þannig aukum við vinnslu jarðvarma í árum þegar innrennsli vatnsaflsvirkjana er lítið og hvílum jarðvarmasvæðin í árum þegar innrennsli er mikið. Til að mæta skemmri tíma sveiflum höfum við fjárfest sérstaklega og aukið afl í vatnsaflsvirkjunum okkar. Sú fjárfesting gefur okkur möguleika á að stýra vinnslu þeirra frá einni stundu til annarrar.

Vatnsaflsvirkjanir Landsvirkjunar leika af þessum sökum stórt hlutverk við  að mæta þeirri aukningu í raforkunotkun sem verður á hverjum morgni þegar samfélagið vaknar og draga svo úr vinnslu að kvöldi til þegar ró færist yfir.

Kaupa sveigjanleika, ekki orku

Sölufyrirtæki sem selja heimilum og fyrirtækjum í landinu rafmagn geta keypt aflþjónustu af Landsvirkjun til að fá aðgang að sveigjanleika vatnsaflsvirkjana og auðvelda sér að mæta daglegum sveiflum notenda sinna. Breytileg orka og aflþjónustan sem nú tekur við eiga það sameiginlegt að þjónusta sölufyrirtæki um sveigjanleika en eru ólíkar að því leyti að með aflþjónustu geta sölufyrirtæki keypt sveigjanleika án þess að kaupa orku af Landsvirkjun. Sölufyrirtæki hafa því fleiri möguleika í orkukaupum og eru ekki bundin af því að kaupa orku af Landsvirkjun til að mæta þörf fyrir sveigjanleika.