Aflþjónusta tekur við á nýju ári
Aflþjónusta hefur nú tekið endanlega við hjá viðskiptavinum Landsvirkjunar, í stað þess sem áður kallaðist breytileg orka. Landsvirkjun kynnti þessa nýju þjónustu sl. sumar.
Orkufyrirtæki þjóðarinnar á og rekur allar stærstu vatnsaflsvirkjanir landsins auk jarðvarmavirkjana á Norðausturlandi. Við leggjum okkur fram um að nýta auðlindirnar eins vel og kostur er bæði til lengri og skemmri tíma. Þannig aukum við vinnslu jarðvarma í árum þegar innrennsli vatnsaflsvirkjana er lítið og hvílum jarðvarmasvæðin í árum þegar innrennsli er mikið. Til að mæta skemmri tíma sveiflum höfum við fjárfest sérstaklega og aukið afl í vatnsaflsvirkjunum okkar. Sú fjárfesting gefur okkur möguleika á að stýra vinnslu þeirra frá einni stundu til annarrar.
Vatnsaflsvirkjanir Landsvirkjunar leika af þessum sökum stórt hlutverk við að mæta þeirri aukningu í raforkunotkun sem verður á hverjum morgni þegar samfélagið vaknar og draga svo úr vinnslu að kvöldi til þegar ró færist yfir.