Sóttu heimsþing jarðvarma í Peking

14.11.2023Orka

Tveir sérfræðingar á vegum Landsvirkjunar sóttu heimsþingið World Geothermal Congress.

Bjarni Pálsson, forstöðumaður Þróunar jarðvarma og Alma Stefánsdóttir, sérfræðingur á deild Þróunar jarðvarma sóttu á dögunum heimsþing jarðvarma í Peking, Kína. Þingið er á vegum alþjóðlegu jarðvarma samtökunum eða International Geothermal Associations (IGA) en Bjarni situr þar í stjórn.

Sino-Íslenskt námskeið

Bjarni var einn af gestakennurum í námskeiðinu 2nd Sino-Icelandic Training Program og fjallaði um djúpborun og háhita jarðvarma á Íslandi. Kennslan fór fram á Campus Sinopec í Beijing, en þar voru einnig fulltrúar fleiri íslenskra fyrirtækja og stofnana sem komu að náminu.

Bjarni tók einnig þátt í pallborðsumræðum undir dagskrárliðnum Continental Geothermal Dialogue, sem Bryant Jones, framkvæmdastjóri Geothermal Rising, stýrði.

Fyrirlestur um mælingar á Þeistareykjum

Alma hélt fyrirlestur á þinginu upp úr grein sinni „A systematic approach to decrease the oxygen gas content at Þeistareykir geothermal power plant“ en hún fékk boð um að halda fyrirlestur eftir að ágrip úr greininni var samþykkt árið áður. Vísindasamfélagið í kringum jarðvarma tekur aðeins við ritrýndum vísindagreinum til að fjalla um á árlegum þingum sínum.

Kerfisbundnar gasmælingar

Greinin fjallar um kerfisbundnar gasmælingar og lekaleit sem voru framkvæmdar á gastæmikerfum Þeistareykjastöðvar árin 2022-2023, með það markmið að lágmarka leka andrúmslofts inn í kerfið sem er rekið við undirþrýsting. Lekar andrúmslofts eru almennt taldir eðlilegur hluti af rekstri jarðvarmavirkjana upp að ákveðnu marki, en með því að fyrirbyggja slíka leka má koma í veg fyrir rekstrarleg vandamál á borð við útfellingar efna og tæringar í lögnum.

Stærsti hvatinn á bak við kerfisbundnu gasmælingarnar er verkefni til samdráttar í kolefnislosun frá jarðvarma, sem Landsvirkjun stefnir á að hefjist árið 2025. Sem hluti af verkhönnun þess verkefnis höfum við aukið gasmælingar margfalt og tekist að lækka súrefnisstyrkinn þannig að nú er hann innan þess bils sem er æskilegt fyrir rekstur gasþvottakerfis sem hluta af vinnslurás Þeistareykjastöðvar.

Kolefnishlutlaus Landsvirkjun

Mælingarnar voru unnar í miklu og góðu samstarfi við starfsfólk rekstrar á Mývatnssvæðinu og einnig Framkvæmdasviðs og er verkefni sem þetta ein lykilforsenda fyrir árangursríkri hönnun, gangsetningu og öruggum rekstri gasþvottakerfis kolefnisbindi-verkefnisins. Undirbúningur er því í fullum gangi fyrir kolefnishlutleysi Landsvirkjunar.

Alma hélt erindi á vinnustofu sem bar heitið Production Engineering, Steam Gathering Systems en þar var einnig fjallað um önnur áhugaverð rannsóknarverkefni sem hafa verið unnin í tengslum við Þeistareykjastöð eða verið hluti af samstarfsverkefnum okkar innanlands.