Raunhækkun raforkuverðs er 5%
Verð á forgangsorku Landsvirkjunar í heildsölu hefur lækkað að raunvirði um 7% frá því að ný raforkulög voru sett og samkeppni hófst á þeim markaði. Verðið á raforku frá Landsvirkjun hækkaði hins vegar milli áranna 2023 og 2024 um 11% að nafnvirði, 5% að raunvirði, enda hélt framboð ekki í við eftirspurn. Sölufyrirtækin, sem selja orkuna áfram til almennings, hafa öll tryggt sér orku langt fram í tímann, t.d. nær alla orku sem þau þurfa út 2025, svo tímabundin hækkun í krefjandi árferði ætti ekki að hafa mikil áhrif á heildarverð til lengri tíma.
Landsvirkjun hélt upplýsingafund um raforkuverð í dag, undir yfirskriftinni Hvað er að frétta af raforkuverði? þar sem sérfræðingar fyrirtækisins fóru yfir þá meginþætti sem ráða raforkuverði. Þar ræður hagkvæm uppbygging raforkukerfisins mestu, með nýtingu hagkvæmra virkjanakosta, traustri flutningsgetu og skynsamlegum fjárfestingum. Til skemmri tíma hefur vatnsbúskapur mikil áhrif. Innrennsli í lón á stærsta athafnasvæði Landsvirkjunar hefur t.d. verið í lágmarki undanfarin misseri.