Öllum skerðingum aflétt
Landsvirkjun hefur tilkynnt öllum stórnotendum raforku á suðvesturhluta landsins að skerðingum á afhendingu raforku verði aflétt frá og með 7. febrúar. Ástæðan er batnandi vatnsbúskapur á Þjórsársvæðinu eftir umhleypingar síðustu vikna. Þá gerir langtímaspá ráð fyrir að hiti og úrkoma verði yfir meðallagi næstu vikur og því hverfandi líkur á að grípa þurfi til frekari skerðinga fram til vors.
Landsvirkjun miðar upphaf hvers vatnsárs við 1. október. Staða lóna var með versta móti sl. haust, t.d. var staða Þórisvatns í sögulegu lágmarki, því þótt vætusamt hafi verið á láglendi sl. sumar var þurrt og kalt á hálendinu og innrennsli í lón dræmt. Strax í september var ljóst að grípa þyrfti til skerðinga og hófust þær hjá stórnotendum á suðvesturhluta landsins 24. október sl. Á sama tíma stefndi í skerðingar á norður- og austurhluta landsins undir lok nóvember, en til þeirra skerðinga kom þó aldrei. Hálslón við Kárahnjúka náði sér á strik í nóvember og hið sama má segja um Blöndulón. Sú bætta staða hafði hins vegar ekki áhrif á skerðingar syðra þar sem flutningskerfi raforku gerir Landsvirkjun ekki kleift að færa nægilega raforku milli landshluta.