Rannsóknir og útboð vegna Hvammsvirkjunar

03.04.2023Hvammsvirkjun

Ýmsar rannsóknir og undirbúningur fyrirhugaðra framkvæmda við Hvammsvirkjun eru að hefjast. Framkvæmdaleyfi vegna sjálfra virkjunarframkvæmdanna og vegagerðar á svæðinu eru enn í vinnslu hjá sveitarfélögum en að mörgu öðru er að hyggja.

Í apríl þarf að grafa skurði niður á klöpp á nokkrum stöðum og skoða ítarlega hvernig sprungur liggja. Þessir rannsóknarskurðir verða grafnir á skika í eigu Landsvirkjunar sem skipt hefur verið út úr landi jarðarinnar Hvamms 1.

Auk rannsókna á svæðinu verður hugað að útboðsmálum á næstu vikum og mánuðum. Bjóða þarf út viðgerðir á Hvammsvegi, en þeim stýrir Landsvirkjun með umboði frá Vegagerðinni. Þá þarf einnig að leggja nýjan aðkomuveg að fyrirhuguðu stöðvarhúsi, en efni til vegagerðarinnar verður allt tekið úr frárennslisskurði væntanlegrar virkjunar. Loks þarf að huga að því að leggja vinnuplön og skapa ýmiss konar aðstöðu aðra. Í apríl hefst einnig forval á framleiðendum aflvéla fyrir virkjunina.

Rétt er að ítreka að engar virkjunar- eða vegagerðarframkvæmdir hefjast fyrr en framkvæmdaleyfi sveitarfélaganna liggja fyrir. Gröfurnar sem vinna á svæðinu í apríl verða við rannsóknir en ekki virkjunarframkvæmdir.