Rándýr leki fyrir (næstum) alla
Við Íslendingar höfum byggt upp öflugt orkukerfi sem er einstakt í heiminum, með sína 100% endurnýjanlegu orku. Lykillinn að því hefur verið að geta keppt á alþjóðlegum orkumarkaði og laðað þannig hingað til lands öflug framleiðslufyrirtæki í orkufrekum iðnaði. Það skilar sér nú í umtalsverðum arðgreiðslum Landsvirkjunar, orkufyrirtækis þjóðarinnar, í sameiginlega sjóði.
Almenningur hefur notið góðs af þessari uppbyggingu á marga vegu, en ekki síst með lágu og stöðugu orkuverði til heimila og smærri fyrirtækja. Þau nota um fimmtung þeirrar raforku sem framleidd er í landinu. Vöxturinn er 1-2% á ári, svo það ætti að vera nokkuð fyrirsjáanlegt hversu mikla orku þurfi að hafa til reiðu til að tryggja raforkuöryggi 99,9% allra raforkunotenda á landinu. Því miður eru blikur á lofti hvað það varðar.