Laxastofninn hefur fjórfaldast
Í Þjórsá eru núna sjö vatnsaflsvirkjanir sem Landsvirkjun hefur reist hverja af annarri síðustu hálfa öldina. Hvammsvirkjun, áttunda virkjunin á þessu svæði, fellur mjög vel að því hlutverki fyrirtækisins að hámarka afraksturinn af þeim orkulindum sem Landsvirkjun er trúað fyrir. Sem orkufyrirtæki í eigu þjóðarinnar er verðmætasköpun og sjálfbærni leiðarljós í allri starfsemi Landsvirkjunar.
Frá því að byrjað var að virkja Þjórsá hefur laxastofninn í ánni fjórfaldast og er nú sá stærsti á landinu. Fyrir því eru ýmsar ástæður sem raktar voru í grein á Vísi fyrir skemmstu. Auk þess sem þar kom fram má nefna hlut Veiðifélags Þjórsár. Veiðifélagið hefur jafnan gert miklar kröfur til Landsvirkjunar um búnað, hönnun og skipulag svo fiskur og seiði eigi greiða leið upp og niður ána á virkjanasvæðunum. Sá metnaður hefur borið þennan góða árangur sem að framan greinir.