Helstu stoðirnar undir byggingu virkjunar, hvort sem er vegna virkjunar vatns, vinds eða jarðvarma, eru rammaáætlun, mat á umhverfisáhrifum og skipulag sveitarfélaga, þá bætist virkjunarleyfi Orkustofnunar við og loks framkvæmdaleyfi sveitarfélaga. Ef allt gengur eins og best verður á kosið miðað við núverandi lög og reglur þá getur þetta ferli skemmst tekið um 12 ár, þ.e. frá því að virkjun er lögð inn til umfjöllunar í rammaáætlun og þar til hún er gangsett.
Það tekur sem sagt 3 kjörtímabil að undirbúa og byggja virkjun eins og kerfið okkar er byggt upp núna. Á því tímabili geta setið þrjár mismunandi ríkisstjórnir og þrjár mismunandi sveitarstjórnir. Það má hins vegar ekki hafa í för með sér að þrisvar sinnum þurfi að hefja ferlið að nýju, með tilheyrandi töfum. Tafirnar hafa verið ærnar upp á síðkastið, það hefur hægst á stjórnsýslunni, vinnsla erinda tekur sífellt lengri tíma og í þeim tilvikum sem lög þó kveða á um ákveðna tímafresti hefur verið farið langt fram yfir þá.
Tökum vatnsaflsvirkjunina Hvammsvirkjun og vindmyllulundinn Búrfellslund sem dæmi:
Hvammsvirkjun var fyrst lögð fram til umfjöllunar í rammaáætlun árið 1999, eða fyrir 24 árum. Hún hefur nú farið í gegnum ferlið þrisvar sinnum og alltaf verið raðað í orkunýtingarflokk af verkefnistjórn og faghópum.
Mati á umhverfisáhrifum lauk með úrskurði ráðherra árið 2004. Árið 2008 vorum við komin svo langt að bjóða út vélbúnað, en efnahagshrun og sú staðreynd að áform Alcan um stækkun í Straumsvík gengu ekki eftir leiddu til samdráttar í eftirspurn. Ekki var hægt að setja undirbúning Hvammsvirkjunar aftur á skrið þegar efnahagsástandið fór að batna þar sem Alþingi setti virkjunina í biðflokk á meðan könnuð voru betur áhrif á laxinn í Þjórsá. Niðurstaða þeirrar vinnu var að réttlætanlegt væri að færa virkjunina í orkunýtingarflokk á nýjan leik og það var gert 2015.
Þá hófst leyfisumsóknarferlið á ný. Virkjunin var þá þegar komin á aðalskipulag sveitarfélaganna en fara þurfti í nýtt mat á umhverfisáhrifum að hluta. Ferlið hefur að mestu gengið eftir áætlun en þó verður að geta þess að Skipulagsstofnun tók auka 4 mánuði í að afgreiða álit um umhverfismatið og Orkustofnun, sem afgreiðir virkjunarleyfi alla jafna á 4 mánuðum, tók af einhverjum ástæðum rúma 18 mánuði að þessu sinni. Enn er beðið lokaleyfanna sem til þarf og þá loks er hægt að ráðast í byggingu virkjunarinnar sem tekur a.m.k. þrjú ár. Hvammsvirkjun tekur vonandi til starfa áður en liðnir eru 3 áratugir frá því að hún kom fyrst til umfjöllunar í rammaáætlun.
Búrfellslundur var lagður inn til umfjöllunar í rammaáætlun árið 2013, fyrir 10 árum. Við sóttum strax um leyfi til rannsókna á svæðinu og hófum mat á umhverfisáhrifum, með það í huga að vinna okkur í haginn og stytta undirbúningstímann. Þar fór hins vegar svo að Alþingi afgreiddi ekki rammaáætlun í 5 ár svo í stað þess að niðurstaða lægi fyrir 2017 var það ekki fyrr en árið 2022. Búrfellslundur var þá settur í orkunýtingarflokk. Við vonuðumst til að skipulagsmál gengju hratt og vel, en vegna deilna sveitarfélaga við ríkið um tekjuskiptingu hafa orðið tafir þar. Ekki er hægt að veita virkjunar- eða framkvæmdaleyfi fyrr en virkjunin hefur verið staðfest á skipulagi. Sú töf sem þegar hefur orðið mun seinka framkvæmdum um heilt ár. Spaðar vindmyllanna verða vonandi farnir að snúast undir árslok 2026.