Jákvæð áhrif á fiskistofna
Margt hefur verið fullyrt um neikvæð áhrif virkjana Landsvirkjunar í Þjórsá á fiskistofna árinnar og ekki allt sannleikanum samkvæmt. Raunin er sú að virkjanirnar hafa haft verulega jákvæð áhrif á stærð stofnanna og gengd þeirra upp Þjórsá og þverár hennar.
Þjórsá var fyrst virkjuð við Búrfell árið 1969 og síðan hafa verið byggðar sex virkjanir til viðbótar í ánni. Á þessari hálfu öld hefur rennsli árinnar jafnast út og aurarnir þar sem áin flæmdist áður um eru nú óðum að gróa upp.
Áhrif virkjana eru auðvitað töluverð á vatnalíf. Áin er orðin tærari en hún var, svo sólarljósið nær lengra niður í árvatnið og ljóstillífun þörunga og plantna hefur aukist. Þetta tvennt – jafnt rennsli og minna jökulgrugg - hefur aukið lífræna framleiðslu í ánni og fiskistofnar árinnar hafa því stækkað. Sé litið á veiðitölur sem endurspegla laxagöngur í ánni má ætla að laxastofninn hafi um það bil tvöfaldast að stærð vegna þessara áhrifa virkjananna.