Lægsta raforkuverð heimila í Evrópu
Raforkukostnaður heimila á Íslandi árið 2023 var sá lægsti í Evrópu að teknu tilliti til verðlags. Til þess að aukin samkeppni um raforku hafi þau áhrif að raforkuverð heimila fjórfaldist, líkt og varpað hefur verið fram í umræðu hér á landi, þyrfti raforkuverð í smásölu að ellefufaldast. Íslensk heimili, sem búa við lokað, 100% endurnýjanlegt raforkukerfi, njóta verndar frá skammtímasveiflum í raforkuverði, sem hafa valdið t.d. frændum okkar á hinum Norðurlöndunum vandræðum.
Skipulagður viðskiptavettvangur raforku tók til starfa á vormánuðum 2024 og hafa niðurstöður markaðsviðskipta með raforku á Íslandi nú verið opinberar öllum í um hálft ár. Það er mikið framfaraskref að allir geti nú séð verð á raforku í heildsölu. Áhyggjur hafa vaknað um að raforkumarkaðir leiði til mikillar hækkunar á raforkuverði til heimila á Íslandi. Það eru eðlilegar áhyggjur, bæði út frá reynslu nágrannaþjóða og vegna þess að ekkert regluverk er í gildi sem verndar heimili frá verðsamkeppni við stórnotendur raforku. Því er möguleiki að samkeppni um raforku, sérstaklega þar sem nýtt framboð raforku er nú takmarkað, leiði til þess að raforkuverð hækki.