Kolefnisverð minnkar kolefnisspor

20.03.2023Umhverfi

Kolefnisspor með því minnsta sem þekkist

Kolefnisspor Landsvirkjunar í raforkuvinnslu er með því minnsta sem þekkist á heimsvísu eða 1,1 g CO2íg/kWst. Við tökum ábyrgð á þeirri losun sem þó verður vegna starfseminnar og verðum kolefnishlutlaus árið 2025.

Landsvirkjun hefur frá árinu 2018 notað kolefnisverð til að ná árangri í að minnka kolefnissporið sitt.

Kolefnisverð Landsvirkjunar árið 2023 er 144 USD fyrir hvert tonn af CO2 ígildi og styður við markmið okkar um kolefnishlutleysi og samdrátt í losun.

Upplýstar ákvarðanir um losun

Við notum innra kolefnisverð til að taka upplýstar ákvarðanir um losun vegna starfseminnar. Það þýðir að losun – eða öllu heldur framtíðarkostnaður vegna losunar – er reiknuð inn í stærri fjárhagsákvarðanir, allt frá innkaupum á rekstrarvörum yfir í val og hönnun á nýjum virkjunarkostum.

Kolefnisverð setur verðmiða á hvert tonn af losun út í andrúmsloftið og afhjúpar greiðsluvilja okkar til að draga úr losun. Einnig notum við kolefnisverð til að hvetja verktaka okkar til að draga úr losun sinni í framkvæmdum vegna virkjana.

Árið 2022 voru einungis 25% af losun í heiminum bundin kolefnisverði. Eftir því sem fleiri fyrirtæki taka upp kolefnisverð því markvissari verða aðgerðir að nauðsynlegum orkuskiptum og því fyrr nást markmið okkar allra að draga úr losun á heimsvísu.