Hvati til orkuskipta
Heimurinn verður að ráðast í orkuskipti og hætta að nota jarðefnaeldsneyti. Til að það nái fram að ganga þarf vinnsla á endurnýjanlegri orku í heiminum að þrefaldast á þessum áratug, að mati Alþjóða orkumálastofnunarinnar. Við Íslendingar getum ekki vikist þar undan enda höfum við sett okkur það markmið að verða óháð jarðefnaeldsneyti árið 2040. Sala upprunaábyrgða hjálpar okkur á þeirri vegferð.
Víða um heim starfa orkufyrirtæki og framleiða rafmagn með kolum, olíu, gasi og kjarnorku. Við vitum að slík orkuvinnsla stefnir heimi okkar í hættu og við verðum að snúa af þessari braut. Orkufyrirtækin verða að nýta endurnýjanlega orkugjafa, fallvötn eða sjávarföll, sól, vind eða jarðvarma. Sú vinnsla kostar vissulega sitt. Það er því mjög jákvætt að nú fáist ekki eingöngu tekjur af sölu raforkunnar sjálfrar heldur einnig af sölu upprunaábyrgða vegna grænnar orkuvinnslu. Um leið gera kaup á upprunaábyrgðum t.d. fyrirtækjum, sem vilja sýna samfélagsábyrgð í verki, kleift að styðja við framleiðslu á endurnýjanlegri orku, jafnvel þótt þau eigi þess ekki kost að nýta þá orku sjálf. Loftslagsáhrifin eru hnattrænn vandi sem virðir engin landamæri og hið sama þarf að gilda um lausn vandans.