Hugsanlegar tafir á framkvæmdum
Framkvæmdir við Hvammsvirkjun gætu tafist um ófyrirséðan tíma, í kjölfar þess að Héraðsdómur Reykjavíkur felldi virkjunarleyfi hennar úr gildi. Landsvirkjun hefur ákveðið að áfrýja dóminum og óska eftir að málið fari beint til Hæstaréttar. Þá hefur umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra boðað frumvarp sem greiði fyrir framkvæmdum við Hvammsvirkjun og komi í veg fyrir frekari tafir. Áfram verður skýrt frá stöðunni á þessari síðu eftir því sem málum vindur fram.
Forsendur dóms Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 15. janúar eru að Umhverfisstofnun hafi skort lagastoð til að heimila breytingu á vatnshloti Þjórsár og því geti virkjunarleyfið ekki staðið. Við innleiðingu vatnatilskipunar Evrópusambandsins hafi löggjafinn í raun gert Umhverfisstofnun ókleift að veita heimild til breytingar á vatnshloti fyrir byggingu vatnsaflsvirkjana og þar með sé ekki hægt að gefa út virkjunarleyfi.