Raforkuöryggi fyrir almenning komið á dagskrá
Loksins, loksins er raforkuöryggi fyrir almenning komið á dagskrá stjórnvalda, með vinnu að laga- og reglugerðarbreytingum þar að lútandi. Við hjá Landsvirkjun höfum lengi talað fyrir mikilvægi þess að koma almenningi í var og nú er sú vegferð hafin. Við verðum að búa svo um hnútana að almenningur keppi ekki við stórnotendur um örugga orku.
Stórnotendur hafa þegar tryggt sinn hag til langs tíma með samningum. Heimili og smærri fyrirtæki þurfa hins vegar að vera í forgangi. Tryggja þarf sama raforkuverð á landinu öllu og að viðskipti verði áfram með þeim hætti að verðbreytingar á þeim markaði verði hóflegar. Við hjá Landsvirkjun, orkufyrirtæki þjóðarinnar, höfum alltaf og munum alltaf setja í forgang að raforkuþörf samfélagsins sé sinnt. En við ein tryggjum ekki raforkuöryggi á landinu.