Útboðum aflýst og frestað
Ákvörðun úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála um að fella virkjunarleyfi Hvammsvirkjunar úr gildi kallar á endurskoðun allra áætlana Landsvirkjunar á svæðinu. Ekki verður hægt að hefja mikilvægar undirbúningsframkvæmdir í sumar.
Nú hefur verið send tilkynning til þeirra fjölmörgu sem sótt höfðu útboðsgögn vegna framkvæmda við vegagerð, vinnuplön og efnisvinnslu í frárennslisskurði og þeim tilkynnt að fallið hafi verið frá útboðinu.
Ferli vegna útboða á aflvélum virkjunarinnar átti að hefjast á næstu vikum og stefnt að útboði byggingarframkvæmda í haust. Þessi útboð munu frestast um óákveðinn tíma.