Framkvæmdum við Hvammsvirkjun seinkað

29.06.2023Hvammsvirkjun

Útboðum aflýst og frestað

Vefur Hvammsvirkjunar

Ákvörðun úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála um að fella virkjunarleyfi Hvammsvirkjunar úr gildi kallar á endurskoðun allra áætlana Landsvirkjunar á svæðinu. Ekki verður hægt að hefja mikilvægar undirbúningsframkvæmdir í sumar.

Nú hefur verið send tilkynning til þeirra fjölmörgu sem sótt höfðu útboðsgögn vegna framkvæmda við vegagerð, vinnuplön og efnisvinnslu í frárennslisskurði og þeim tilkynnt að fallið hafi verið frá útboðinu.

Ferli vegna útboða á aflvélum virkjunarinnar átti að hefjast á næstu vikum og stefnt að útboði byggingarframkvæmda í haust. Þessi útboð munu frestast um óákveðinn tíma.

Miklir hagsmunir í húfi

Viðtal við Hörð Arnarson á Stöð 2 þann 28. júní 2023

Landsvirkjun mun skila því sem henni ber í því ferli sem fram undan er við endurnýjun virkjunarleyfisins en telur ekki leika vafa á því að virkjunin verði heimiluð. Öllum álitamálum var vísað frá í úrskurði nefndarinnar nema því sem lýtur að nýrri vatnatilskipun en sú vinna er fyrst og fremst í höndum Orkustofnunar og Umhverfisstofnunar.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar:

„Við treystum því að báðar þessar stofnanir vinni hratt og vel að málinu svo það tefjist ekki lengur en nauðsynlegt er. Miklir þjóðhagslegir hagsmunir eru í húfi að fá græna orku Hvammsvirkjunar sem fyrst inn í fulllestað raforkukerfi landsins.“

Fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir að Hvammsvirkjun yrði gangsett síðla árs 2027. Sem stendur er ekki ljóst hversu lengi gangsetningin frestast.