Uppsetning á örgagnaveri
Landsvirkjun hefur gert samstarfssamning við japanska fyrirtækið Internet Initiative Japan Inc. (IIJ) um uppsetningu á svokölluðu örgagnaveri (e. „Micro Data Center“).
Örgagnaver er hægt að setja upp nánast hvar sem er og er fljótlegt í uppsetningu. Tækið er á stærð við ísskáp, hefur sömu eiginleika og hefðbundið gagnaver og er fjarstýrt í rauntíma.
Samstarfið felur í sér að setja upp og prófa þennan nýja búnað, sem IIJ hefur þróað, við Írafossstöð á næstu 12 mánuðum. Fjarskiptafyrirtækið Farice hefur stutt verkefnið.
IIJ leggur áherslu á að styðja sjálfbæra þróun og valdi því að staðsetja prófanirnar hér og knýja þær með rafmagni frá Landsvirkjun sem er unnið úr endurnýjanlegum orkugjöfum, en einnig er hitastig hér á landi hentugt fyrir reksturinn og staðsetning ákjósanleg, að mati fyrirtækisins.
Internet Initiative Japan stofnaði fyrstu netþjónustu Japans árið 1992. Viðskiptavinir fyrirtækisins eru 13.000 fyrirtæki innan og utan Japans og býður það ýmsar netlausnir á borð við nettengingu, skýjaþjónustu, öryggisþjónustu, nettengingu tækja (IoT), dreifingu myndskeiða og fleira.
Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar:
„Við hjá Landsvirkjun tökum því fagnandi að fá að taka þátt í þróun örgagnavers Internet Initiative Japan. Verkefnið fellur vel að ákvörðunum okkar um forgangsröðun í nýtingu grænu orkunnar okkar, þar sem stuðningur við aukna stafræna vegferð og nýsköpun er ofarlega á blaði. Það er mjög ánægjulegt að geta lagt okkar af mörkum við þessa merku nýsköpun og við hlökkum til að kanna hver næstu skref geta orðið í samstarfi fyrirtækjanna.“
Yoshikazu Yamai, framkvæmdastjóri innviða og nýsköpunar verkfræðideildar IIJ í Evrópu:
„Við hjá IIJ leggjum áherslu á að útfæra starfsemi okkar á alþjóðlegum markaði. Það er okkur fagnaðarefni að geta sameinað endurnýjanlega orku Íslands og tækninýjungar okkar. Við erum reiðubúin að takast á við áskoranir framtíðar og ætlum að gera það með einbeitni og nýsköpun og stefna að framúrskarandi árangri.“