Ekki næg orka til allra góðra verkefna

04.10.2022Fyrirtækið

Breytt heimsmynd - breytt forgangsröðun

Horfa á upptöku af haustfundi

Landsvirkjun þarf að forgangsraða áherslum í orkusölu til næstu ára, enda er eftirspurn eftir raforku meiri en framboðið. Vegna þess mun fyrirtækið hvorki leggja áherslu á að fá nýja stórnotendur í málmiðnaði eða hrávöruvinnslu í viðskipti né heldur leggja áherslu á útflutning orku.

Þess í stað verður megináhersla lögð á að anna eftirspurn eftir raforku til aukinnar almennrar notkunar í samfélaginu og til innlendra orkuskipta, til að styðja við aukna stafræna vegferð og nýsköpun og til að styðja við framþróun núverandi stórnotenda. Í fyrsta skipti í sögu Landsvirkjunar þarf að segja nei við fjölmörgum góðum verkefnum. Orkan er einfaldlega ekki til.

Þetta kom fram í máli Harðar Arnarsonar forstjóra Landsvirkjunar á haustfundi fyrirtækisins í dag. Á fundinum, sem var yfirskriftina Breytt heimsmynd, breytt forgangsröðun, röktu sérfræðingar Landsvirkjunar stöðu orkumála hér á landi sem erlendis, hver fyrirsjáanleg eftirspurn framtíðar yrði og hvernig unnt væri að bregðast við til að standa við alþjóðlegar skuldbindingar Íslendinga og stefnumörkun stjórnvalda.

Þurfum að aðlagast breyttum heimi

Guðlaugur Þór Þórðarson

Fundurinn hófst með ávarpi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Hann sagði að allt í kringum okkur væri nú ein alvarlegasta orkukrísa í áratugi og í Evrópu væri unnið að neyðarráðstöfunum vegna orkuskorts og gríðarlegrar hækkunar orkuverðs. Aldrei áður hefði verið ljósara mikilvægi þess að vera ekki bara óháður jarðefnaeldsneyti heldur að vera ekki háður öðrum í orkumálum.

Guðlaugur Þór benti á að með samþykkt Alþingis sl. vor hefði áralöng kyrrstaða um Rammaáætlun loks verið rofin. Nú væri fengin leiðsögn um forgangsröðun í orkuöflun og jafnframt hvernig ætti alls ekki að vinna orku. Orkuvinnsla gæti haft óafturkræf áhrif á umhverfið og okkur bæri skylda til að stíga varlega niður.

Ráðherra sagði að orkuöryggi fælist ekki eingöngu í aukinni orkuvinnslu heldur einnig fjölbreyttari kostum, á borð við vindorku. Nauðsynlegt væri að afla nýrrar, grænnar orku. „Þar treystum við ekki síst á Landsvirkjun,“ sagði ráðherra, sem jafnframt rakti ýmis þau verkefni sem væru í vinnslu á vegum ráðuneytis hans, ýmissa stofnana, sveitarfélaga og fyrirtækja. „Við þurfum að aðlagast breyttum heimi, haga seglum eftir vindi og þrauka þá storma sem á okkur dynja. Þar er mikið öryggi í góðum rekstri Landsvirkjunar.“

Samkeppnishæfni fyrirtækja aldrei betri

Tinna Traustadóttir

Tinna Traustadóttir, framkvæmdastjóri Sölu og þjónustu, rakti stöðuna á meginlandi Evrópu þar sem orkukostnaður hefur margfaldast svo nú er þannig komið að fólk veigrar sér við að kynda hús sín eða hlaða rafbíla.

Lítil og stór fyrirtæki hafa hætt starfsemi vegna orkukostnaðar. Nokkrum álverum á meginlandi Evrópu hefur verið lokað. Um 20% samdráttur hefur orðið í álframleiðslu í Evrópu sem jafngildir allri álframleiðslu hér á landi.

Hér á landi er staðan önnur og samkeppnishæfni fyrirtækja hér á landi hefur aldrei verið betri. Tinna vísaði til þess að á síðustu misserum hefði verið endursamið við stærstu viðskiptavini Landsvirkjunar. Þeir greiða nú umtalsvert hærra verð fyrir orkuna en áður eða sambærilegt og almennt gildir í heildsölu.

Eitt lægsta kolefnisspor í heimi í orkuvinnslu

Jóna Bjarnadóttir

Jóna Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri Samfélags og umhverfis, rifjaði upp að ríki heims hefðu sameinast um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þær skuldbindingar væru bundnar við svokallaða samfélagslosun, eða það sem kallað hefur verið losun á beina ábyrgð ríkis.

Þær aðgerðir, sem hefðu bein áhrif á samfélagslosun, væru orkuskipti í vegasamgöngum, sjávarútvegi og innanlandsflugi, rafeldsneytisframleiðsla til notkunar innanlands og niðurdæling koldíoxíðs frá jarðvarma. Aðrar aðgerðir, sem væru sannarlega allra góðra gjalda verðar og ástæða til að halda áfram, hefðu hins vegar engin áhrif á þessar skuldbindingar.

Jóna benti á að Landsvirkjun væri með eitt lægsta kolefnisspor í heimi í orkuvinnslu en ætlaði ekki að láta þar við sitja. Fyrirtækið hyggst á næstu árum draga úr losun frá starfsemi sinni svo nemur 2,5% af heildarskuldbindingum þjóðarinnar. Ekki þyrfti nema 40 aðila, fyrirtæki, atvinnu- eða þjónustugreinar, til ná sambærilegum árangri og þá næði þjóðin að uppfylla skuldbindingar sínar að fullu.

Þriðju og síðustu orkuskiptin

Ríkarður Ríkarðsson

Ríkarður Ríkarðsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaþróunar og nýsköpunar, fjallaði um þörfina á rafeldsneyti svo orkuskiptin nái að ganga eftir.

Hann benti á að Íslendingar hefðu þegar lokið gríðarlegum orkuskiptum með hitaveitu og rafvæðingu. Núna ættum við samgöngurnar eftir. Við þyrftum að losa okkur við innflutning á einni milljón tonna af bensíni og olíum á ári. Til að ná því bentu grófar áætlanir til að tvöfalda þyrfti græna orkuvinnslu.

Rafeldsneyti á borð við vetni og metanól gætu knúið orkuskipti Íslands næstu árin þar sem rafvæðing hentar ekki, t.d. í tilfelli flutningabíla og stærri skipa. Landsvirkjun er þegar að vinna að tveimur verkefnum á þessu sviði, þ.e. að kanna framleiðslu á vetni fyrir orkuskipti á landi og nýsköpun og kanna framleiðslu á metanóli fyrir orkuskipti á hafi.

Margt í pípunum en tekur langan tíma

Ásbjörg Kristinsdóttir

Ásbjörg Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri Framkvæmda, sagði að undirbúningur virkjana væri mjög tímafrekt ferli. Landsvirkjun hefði byrjað undirbúning Hvammsvirkjunar í Þjórsá fyrir 30 árum, en nú hillir undir að hún verði að veruleika þótt leyfisferli sé ekki endanlega lokið. Búrfellslundur, þar sem reisa á vindmyllur, hefði verið í undirbúningi í áratug.

Ásbjörg benti á að Landsvirkjun hefði á undanförnum áratug gangsett tvær nýjar vatnsaflsstöðvar, eina jarðvarmastöð og reist tvær vindmyllur. Aflstöðvar fyrirtækisins eru alls 19 og framleiða samtals yfir 70% allrar raforku á Íslandi.

„Rekstur Landsvirkjunar á þessum aflstöðvum í meira en hálfa öld hefur skapað þjóðinni gríðarleg verðmæti og við viljum tryggja að svo verði til framtíðar,“ sagði hún. Þar nefndi hún ýmsar leiðir til frekari orkuöflunar.

Auk Búrfellslundar og Hvammsvirkjunar, sem verður 8. virkjunin í Þjórsá, nefndi Ásbjörg vindmyllulund við Blöndu. Ef allt gengur að óskum gætu þessir kostir farið að skila grænni orku inn í kerfið árið 2026 eða 2027. Þá er verið að skoða ýmsar leiðir til aflaukningar og endurbóta á núverandi aflstöðvum, til dæmis í Sigöldu, Búrfelli II og á Þeistareykjum.

Hlutverk Landsvirkjunar ræður forgangsröðun

Hörður Arnarson

Hörður Arnarson forstjóri sagði að gjörbreyting hefði orðið á orkumarkaði á stuttum tíma. Fyrir 2-3 árum hefði verið offramboð á orku og verðið eftir því. Framtíðin væri óviss og líklegt að sú óvissa vari næstu 3-5 ár.

Hann sagði að krefjandi skuldbindingar í loftslagsmálum og markmið um orkuskipti leiddu til meiri eftirspurnar eftir grænni orku en áður væru dæmi um. Óhjákvæmilegt væri að forgangsraða orkusölu framtíðar og við þá forgangsröðun væri horft til hlutverks Landvirkjunar, að hámarka verðmæti þeirra endurnýjanlegu orkulinda sem fyrirtækinu er trúað fyrir, með sjálfbærni og hagkvæmni að leiðarljósi.

Í hæsta forgangi hjá Landsvirkjun sem fyrr væri almenn notkun raforku og innlend orkuskipti, þar sem sérstaklega er stutt við skuldbindingar þjóðarinnar í loftslagsmálum. Hörður vísaði til þess sem fram hefði komið í fyrri erindum. Nú væri svo komið að í fyrsta skipti í sögu Landsvirkjunar þyrfti fyrirtækið að segja nei við fjölmörgum góðum verkefnum. Orkan væri einfaldlega ekki til. Verkefnin ættu það flest sameiginlegt að þurfa mikla orku en styðja ekki beint við loftslagsskuldbindingar þjóðarinnar. Þess vegna yrði að segja nei við nýjum stórnotendum í málmiðnaði og hrávöruvinnslu og nei við verkefnum sem lúta að útflutningi orku með rafeldsneyti eða sæstreng.

Grunnur sáttar um framhaldið

Kristín Linda Árnadóttir

Haustfundur Landsvirkjunar var afar vel sóttur. Gestir voru um 350 og fundurinn jafnframt sendur út í beinu streymi sem hátt á þriðja hundrað manns fylgdust með.

Kristín Linda Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, sagði ánægjulegt og hvetjandi að finna svo mikinn áhuga á starfsemi orkufyrirtækis þjóðarinnar. Segja mætti að fundurinn væri fulllestaður, rétt eins og orkukerfið. Þessi mikli áhugi væri grunnur þess að sátt næðist um næstu skref í orkuöflun.

Hér er hægt að horfa á upptöku af haustfundi