Ærin verkefni í orkumálum
Landsvirkjun hefur lengi varað við því ástandi sem nú er uppi, þegar raforkukerfið er fullselt og ekki er fyrirsjáanlegt að hægt verði að mæta eftirspurn eftir rafmagni fyrir eðlilegan vöxt atvinnulífsins og margboðuð orkuskipti. Þar höfum við sérstaklega áhyggjur af árunum 2025-26, áður en næstu virkjanir koma í rekstur.
Á árunum 2010-2020 reisti Landsvirkjun þrjár af þeim 10 virkjunum sem fyrirtækið hefur byggt: Búðarhálsvirkjun, Þeistareykjavirkjun og Búrfellsvirkjun II. Samanlagt uppsett afl þessara virkjana er 285 MW, með orkuvinnslugetu upp á meira en tvær terawattstundir árlega. Með þeim jókst orkuvinnslugetan um tæp 20%. Ekki er því hægt að segja að fyrirtækið hafi slegið slöku við í uppbyggingu raforkukerfisins á öðrum áratug aldarinnar, öðru nær. Í grófum dráttum hélt orkuvinnslugetan í við eftirspurn.
Eftirspurnin vex nú hins vegar hröðum skrefum. Hjá heimilum og smærri fyrirtækjum nemur sú aukning um 5-10 MW á ári. Þá eru mikil og orkufrek uppbyggingaráform hjá áhugaverðum viðskiptavinum í matvælavinnslu og gagnaverum, svo dæmi séu tekin. Og enn eru orkuskiptin, það stóra og mikilvæga verkefni, ótalin.