Gríðarleg gagnaframleiðsla
Rúmlega fimm milljarðar manna eru virkir á netinu. Á hverjum degi bætist við gagnamagnið sem þarf að geyma og vinna úr fyrir framtíðina - hundruð milljóna tölvupósta, stöðuuppfærslna, tísta, mynda, myndbanda, skjala og skráa en einnig líkana fyrir veðurspár, heilbrigðisþjónustu, menntaþjónustu, framleiðslukerfi, samgöngukerfi, samskiptakerfi og fleira sem nútímasamfélag okkar byggir á. Í fyrra voru framleiddir 97 þúsund milljarðar gígabæta, hátt í helmingur allrar gagnaframleiðslu mannkyns fram að því ári.
Þessi gríðarlega gagnaframleiðsla hefur skapað nýjan iðnað og nágrannaríki okkar keppast nú við að reyna að laða til sín fyrirtæki á þessu sviði. Ástæða þess er að gagnaver gegna lykilhlutverki í fjórðu iðnbyltingunni og geta haft mikil áhrif á samkeppnishæfni, velsæld og öryggi þjóða.