Mannauðs- og jafnréttisstefna

Öflug og framsækin stefna

Mannauðs- og jafnréttisstefna á PDF

Tilgangur mannauðs- og jafnréttisstefnu okkar er að styðja við metnaðarfullt starf orkufyrirtækis þjóðarinnar. Við leggjum áherslu á öfluga liðsheild og góðan starfsanda. Það er grunnur fyrirtækjamenningar okkar sem einkennist af tækifærum til starfsþróunar, vellíðan, fjölbreytileika og jafnrétti.

Orkufyrirtæki þjóðarinnar er framsækinn og eftirsóttur vinnustaður og við leggjum öll áherslu á að svo verði áfram.

Liðsheild og menning

Hlutverk okkar eru fjölbreytt, markmiðin skýr og saman störfum við að því að raungera framtíðarsýn fyrirtækisins.

Við leggjum metnað og ástríðu í verkefni okkar og nálgumst þau með áræðni og jákvæðu hugarfari.

Við sýnum frumkvæði, leysum verkefni með skapandi hætti og erum óhrædd við að reyna nýja hluti.

Samvinna og samskipti

Við hlúum að mannlega þættinum í störfum okkar. Við vinnum saman að úrlausn verkefna, stundum fagleg vinnubrögð, miðlum upplýsingum, beitum virkri hlustun, deilum þekkingu og veitum hvert öðru stuðning.

Samskipti okkar byggja á trausti og eru hreinskiptin og lausnamiðuð. Við sýnum kurteisi og virðingu og hvetjum hvert annað áfram, veitum uppbyggilega endurgjöf og hrósum fyrir góðan árangur.

Jafnrétti og fjölbreytileiki

Jafnrétti og fjölbreytileiki styðja við árangur og gera fyrirtækið að eftirsóknarverðum vinnustað. Við virðum mannréttindi, leitum leiða til að tryggja jafna möguleika og þátttöku kynja, fögnum fjölbreytileikanum, styðjum við inngildingu og vinnum markvisst gegn hvers konar mismunun.

Starfsfólk er metið að verðleikum og nýtur jafnra tækifæra. Í því samhengi er sérstaklega horft til ráðninga og framgangs í starfi, þjálfunar og kjara.

Við leggjum áherslu á jafnrétti og tryggjum jöfn laun fyrir jafn verðmæt störf. Virk jafnréttisáætlun og vottað jafnlaunakerfi eru forgangsatriði.

Farsæld og sveigjanleiki

Við hugum að vellíðan og farsæld starfsfólks og vinnum að heilsutengdum forvörnum, öryggi og vinnuvernd. Við sköpum starfsfólki tækifæri til að þróa færni og hæfni, sækja sér endurmenntun og vinna með styrkleika sína að verkefnum sem það brennur fyrir.

Við sýnum ólíkum þörfum skilning og tryggjum starfsfólki góðan aðbúnað og sveigjanleika við störf til þess að samþætta vinnu og einkalíf.

Einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundið áreiti og annað ofbeldi er ekki liðið. Landsvirkjun er með skilgreinda viðbragðsáætlun fyrir greiningu og úrvinnslu slíkra mála.