Starfsfólk
Starfsfólk Landsvirkjunar skal njóta samkeppnishæfra starfskjara sem endurspegla ábyrgð og frammistöðu í starfi. Greidd skulu sambærileg laun fyrir sambærilega vinnu óháð kyni í samræmi við jafnlaunakerfi fyrirtækisins.
Framkvæmdastjórar og stjórnendur
Forstjóri, í samráði við stjórnarformann, ræður framkvæmdastjóra einstakra sviða fyrirtækisins og æðstu stjórnendur, ákvarðar laun þeirra og endurskoðar reglulega með tilliti til starfskjarastefnu og aðstæðna á vinnumarkaði.
Forstjóri
Stjórn gerir skriflegan ráðningarsamning við forstjóra. Grunnlaun og aðrar greiðslur til forstjóra skulu ávallt vera samkeppnishæfar og taka mið af hæfni, ábyrgð og umfangi starfsins.
Önnur starfskjör skulu vera með áþekkum hætti og hjá sambærilegum fyrirtækjum eftir því sem ástæða þykir til, svo sem greiðslur í lífeyrissjóð, orlof, hlunnindi, uppsagnarfrestur og önnur kjör.
Starfskjaranefnd skal árlega yfirfara grunnlaun og aðrar greiðslur til forstjóra. Ef ástæða þykir til gerir nefndin tillögu til stjórnar um breytingu og skal þá eftir atvikum hafa hliðsjón af frammistöðu forstjóra og þróun launakjara almennt hjá sambærilegum fyrirtækjum.
Við gerð ráðningarsamnings við forstjóra skal haft að leiðarljósi að ekki komi til frekari greiðslna við starfslok en fram koma í ráðningarsamningi. Heimilt er þó við sérstök skilyrði að mati stjórnar að gera sérstakan starfslokasamning við forstjóra.
Árangurstengdar viðbótargreiðslur
Heimilt er að greiða forstjóra, stjórnendum og starfsfólki árangurstengdar viðbótargreiðslur og skulu þær miðast við frammistöðu viðkomandi, mikilvæga áfanga í rekstri og starfsemi fyrirtækisins. Slíkar viðbótargreiðslur skulu vera í eðlilegu hlutfalli við föst laun viðkomandi og ekki hærri en sem nemur einum mánaðarlaunum á ári.
Endurmenntun
Landsvirkjun leggur áherslu á endurmenntun starfsfólks, með það að markmiði að gera það betur hæft til þess að takast á við störf sín í síbreytilegu umhverfi og til þess að skapa því aukin tækifæri til að takast á við ný störf. Kostnaður skal vera hóflegur og í samræmi við tilgang endurmenntunarinnar. Í þeim tilvikum sem kostnaður vegna endurmenntunar starfsfólks er umtalsverður skal liggja fyrir rökstuðningur yfirmanns og samþykki forstjóra. Áhersla er lögð á jafnt aðgengi allra til endurmenntunar.
Starfslokasamningar
Landsvirkjun gerir ekki starfslokasamninga nema í undantekningartilvikum og þá vegna hagsmuna fyrirtækisins.
Stjórn
Þóknun stjórnarmanna er ákveðin á aðalfundi ár hvert eins og kveðið er á um í lögum um Landsvirkjun. Starfskjaranefnd gerir tillögu um þóknun stjórnarmanna og nefndarmanna í undirnefndum stjórnar fyrir líðandi kjörtímabil, sem lögð skal fyrir aðalfund, og skal í þeim efnum taka mið af þeirri ábyrgð sem á stjórnar- og nefndarmönnum hvílir og þeim tíma sem verja þarf til starfsins.