Upprunaábyrgðir fylgja ekki lengur í heildsölu

29.11.2022Viðskipti

Upprunaábyrgðir fylgja ekki í heildsölu frá 2023

Landsvirkjun hefur tilkynnt sölufyrirtækjum á heildsölumarkaði raforku að frá og með árinu 2023 muni upprunaábyrgðir raforku ekki fylgja endurgjaldslaust með þeirri orku sem fyrirtækin kaupa. Afsláttur verður veittur fyrir kaupum upprunaábyrgða á næsta ári og munu fyrirtækin hafa val um framseljanlegar ábyrgðir á markaðsverði eða óframseljanlegar á föstu verði.

Með því að láta upprunaábyrgðirnar ekki lengur fylgja raforkukaupum sölufyrirtækja, sem þær hafa gert frá árinu 2016, er verið að færa fyrirkomulag sölu til samræmis við kerfið á meginlandi Evrópu.

Í breyttu fyrirkomulagi felast engar breytingar á verðskrá Landsvirkjunar fyrir raforku í heildsölu. Heimili búa áfram við lágt og stöðugt raforkuverð. Raforkuverðið er aðeins um fjórðungur af raforkureikningi heimila, en annar kostnaður er t.d. vegna dreifingar og flutnings. Kjósi viðskiptavinir að kaupa upprunaábyrgðir og styðja þannig við endurnýjanlega raforkuvinnslu, má gera ráð fyrir að áhrif á heildarreikninginn séu óveruleg.

Sívaxandi verðmæti

Upprunaábyrgð er staðfesting á því að raforka hafi verið framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum. Upprunaábyrgðir eru sjálfstæð söluvara, óháð afhendingu á raforkunni sjálfri. Fyrirtæki, stofnanir og einstaklingar geta með kaupum á upprunaábyrgðum vottað raforkukaup sín og stutt endurnýjanlega orkuframleiðslu.

Frá því að kerfið var sett á laggirnar hefur það fest sig í sessi og verðmæti upprunaábyrgða fimmtugfaldast. Hlutverk Landsvirkjunar er að hámarka afrakstur af þeim auðlindum sem henni er trúað fyrir og því er litið svo á að fyrirtækinu sé ekki stætt á að afhenda svo mikil verðmæti endurgjaldslaust.

Tekjur Landsvirkjunar af sölu upprunaábyrgða námu um 1 milljarði króna á síðasta ári og stefnir í 2 milljarða í ár. Kaupendur ábyrgðanna eru að mestu almennir notendur í Evrópu sem vilja styðja við uppbyggingu endurnýjanlegra orkukosta.

Styður við græna orkuvinnslu

Tilgangur upprunaábyrgða er að styðja við uppbyggingu endurnýjanlegra orkukosta og þar með orkuskipti. Fyrirtæki sem vinna raforku úr endurnýjanlegum auðlindum, á borð við vatnsafl, jarðvarma eða vind, njóta þess með hærra verði.

Aukinn arður af auðlindinni nýtist til að efla frekari græna orkuvinnslu. Landsvirkjun áformar að auka endurnýjanlega orkuvinnslu sína og næstu verkefni verða að líkindum vindlundur við Búrfell og gerð Hvammsvirkjunar í Þjórsá.

Auknar tekjur af upprunaábyrgðum skjóta því enn styrkari stoðum undir framtíð orkufyrirtækis þjóðarinnar, sem hefur greitt síhækkandi arð til ríkissjóðs á undanförnum árum.

Samevrópskt kerfi í baráttunni gegn loftslagsbreytingum

Evrópskt viðskiptakerfi upprunaábyrgða, sem 28 lönd eiga aðild að, var innleitt hér á landi með lögum árið 2008, en Landsvirkjun hóf sölu upprunaábyrgðanna árið 2011.

Ísland er aðili að EES-samningnum og er því skylt samkvæmt tilskipunum samningsins að gefa raforkusölum hérlendis kost á að fá útgefnar upprunaábyrgðir og taka þátt í viðskiptum með þær.

Rétt er að taka fram, að orkufyrirtæki og orkunotendum ber ekki skylda til að kaupa upprunaábyrgðir raforku. Kerfið er liður í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og hefur það markmið að styðja við endurnýjanlega raforkuframleiðslu og auka vægi hennar alls staðar í Evrópu.