Upprunaábyrgðir fylgja ekki í heildsölu frá 2023
Landsvirkjun hefur tilkynnt sölufyrirtækjum á heildsölumarkaði raforku að frá og með árinu 2023 muni upprunaábyrgðir raforku ekki fylgja endurgjaldslaust með þeirri orku sem fyrirtækin kaupa. Afsláttur verður veittur fyrir kaupum upprunaábyrgða á næsta ári og munu fyrirtækin hafa val um framseljanlegar ábyrgðir á markaðsverði eða óframseljanlegar á föstu verði.
Með því að láta upprunaábyrgðirnar ekki lengur fylgja raforkukaupum sölufyrirtækja, sem þær hafa gert frá árinu 2016, er verið að færa fyrirkomulag sölu til samræmis við kerfið á meginlandi Evrópu.
Í breyttu fyrirkomulagi felast engar breytingar á verðskrá Landsvirkjunar fyrir raforku í heildsölu. Heimili búa áfram við lágt og stöðugt raforkuverð. Raforkuverðið er aðeins um fjórðungur af raforkureikningi heimila, en annar kostnaður er t.d. vegna dreifingar og flutnings. Kjósi viðskiptavinir að kaupa upprunaábyrgðir og styðja þannig við endurnýjanlega raforkuvinnslu, má gera ráð fyrir að áhrif á heildarreikninginn séu óveruleg.