Fleiri fyrirtæki og aukin samkeppni
Breyttu fyrirkomulagi á sölu grunnorku Landsvirkjunar er ætlað að auka gagnsæi og bregðast við breyttum raforkumarkaði þar sem fyrirtækjum hefur fjölgað ört og samkeppni aukist. Lengst af seldi Landsvirkjun grunnorku í heildsölu í gegnum eigin viðskiptavef. Kaupendur raforku á heildsölumarkaði þurftu að leggja inn bindandi óskir um raforkukaup komandi árs til Landsvirkjunar 1. nóvember hvert ár.
Við blasir að slíkt getur reynst erfitt á síbreytilegum markaði. Þetta fyrirkomulag var barn síns tíma og þjónaði ekki sífellt kvikari markaði þar sem jafnframt er tekist á við sívaxandi orkuþörf. Rík krafa hefur því verið gerð um breytingar, bæði af hálfu orkufyrirtækja og stjórnvalda, eins og fram kemur í orkustefnu Íslands, sem samþykkt er af Alþingi. Ekki sé lengur eðlilegt að bjóða upp á eitt „ríkisverð“, heldur verði eðlileg verðmyndun að eiga sér stað á markaði.