Á mynd eru í aftari röð: Karsten Uhd Plauborg, Felix Pahl og Anna-Lena Jeppsson frá CIP og Ríkarður Ríkarðsson frá Landsvirkjun. Í fremri röð: Hörður Arnarson frá Landsvirkjun, Jón B. Hákonarson frá Fjarðabyggð, Kristín Linda Árnadóttir frá Landsvirkjun, Jón Már Jónsson frá Síldarvinnslunni og Guðbjörg Rist frá Atmonia.
Þrjú fyrirtæki munu taka þátt í þróunarferli græns orkugarðs á Reyðarfirði
Green Energy Park in Reyðarfjörður
Viljayfirlýsing um verkefni sem gæti hraðað orkuskiptum á Íslandi með uppbyggingu á grænum orkugarði á Reyðarfirði var undirrituð í gær. Landsvirkjun, Copenhagen Infrastructure Partners (CIP) og sveitarfélagið Fjarðabyggð hafa unnið að því undanfarið að kanna kosti þess að þróa slíkan orkugarð og nú hafa fyrirtækin Atmonia, Síldarvinnslan og Laxar bæst við. Markmiðið er að meta hvernig framleiðsla á grænu rafeldsneyti getur greitt fyrir orkuskiptum í sjávarútvegi, sjóflutningum og landflutningum.
Því til viðbótar verða kannaðir möguleikar á framleiðslu á kolefnislausum áburði auk hagnýtingar súrefnis, em er hliðarafurð rafeldsneytisframleiðslu, í landeldi á fiski. Þá verða kostir þess að nýta glatvarma frá mögulegri rafeldsneytisframleiðslu til húshitunar á Reyðarfirði, sem er einn fárra þéttbýlisstaða á landinu sem ekki er með hitaveitu, kannaðir með Hitaveitu Fjarðabyggðar. Aðkoma Atmonia, Síldarvinnslunnar og Laxa er mikilvægur áfangi í þeirri vinnu sem nú stendur yfir við þróun og greiningu á tækifærum sem felast í uppbyggingu græns orkugarðs á Reyðarfirði. Fleiri fyrirtæki hafa lýst yfir áhuga á aðkomu að verkefninu og standa yfir viðræður við þau.
Um fyrirtækin
Um Landsvirkjun
„Landsvirkjun er í stöðugri leit að leiðum til að mæta áskorunum vegna loftslagsbreytinga, bæði hér heima og á alþjóðavísu. Grænn orkugarður á Reyðarfirði getur skapað bæði verðmæti og þekkingu samhliða því að ýta undir orkuskipti, bætta orkunýtingu og minni losun kolefnis. Samstarfið við CIP og framlag Fjarðabyggðar, Atmonia, Síldarvinnslunnar og Laxa getur hjálpað okkur að ná þessum markmiðum,“ segir Ríkarður Ríkarðsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaþróunar og nýsköpunar hjá Landsvirkjun.
Um Fjarðabyggð
„Við erum sannfærð um að grænn orkugarður á Reyðarfirði getur orðið miðstöð verðmæta- og þekkingarsköpunar sem gagnast mun samfélaginu til lengri tíma og hjálpa til í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Það er líka mjög spennandi að hugsa til þess möguleika að Reyðarfjörður muni loksins geta fengið hitaveitu vegna þess starfs sem hér mun fara fram,“ segir Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar.
Um Copenhagen Infrastructure Partners
„Verkefni eins og þetta á Reyðarfirði skiptir sköpum fyrir ríki og atvinnugreinar sem vilja taka næsta stóra skrefið til að draga úr kolefnislosun og ná markmiðum Parísarsamkomulagsins. Markmið okkar með verkefninu á Reyðarfirði er að greiða fyrir grænum orkuskiptum á Íslandi og í Norður-Evrópu og bæta orkunýtingu með því að nýta kosti hringrásarhagkerfisins. Það er mikilvægt fyrir okkur að vinna með jafn öflugum aðila og Landsvirkjun og starfa með leiðandi fyrirtækjum í sjávarútvegi, fiskeldi, vöruflutningum og nýsköpun á Íslandi við að leysa úr læðingi þau tækifæri sem felast í grænu rafeldsneyti, grænum áburði og verðmætasköpun úr hliðarafurðum rafeldsneytis-framleiðslunnar,“ segir Felix Pahl, einn meðeiganda CIP.
Um Atmonia
"Meginmarkmið Atmonia er að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda með nýrri tækni á sviði ammoníaks- og nítrat framleiðslu og passar þátttaka í Græna Orkugarðinum fullkomlega inn í þá vegferð. Er tækni fyrirtækisins bæði hagkvæm og umhverfisvæn nýjung og erum við mjög spennt yfir því að Reyðarfjörður verði með fyrstu stöðunum þar sem okkar tækni verður beitt í baráttunni gegn hlýnun jarðar" segir Guðbjörg Rist, framkvæmdastjóri Atmonia. Atmonia er frumkvöðlafyrirtæki sem er að þróa nýja tækni við framleiðslu ammoníaks úr lofti og vatni. Þessi nýja tækni Atmonia losar engar gróðurhúsalofttegundir, en núverandi framleiðsluaðferð ammoníaks er ábyrg fyrir 1-2% af losun koltvísýrings af mannavöldum í heiminum. Atmonia er einnig að þróa nýja og umhverfisvæna aðferð við að framleiða nítrat úr ammoníaki, en eins og með ammoníak, er núverandi framleiðsluaðferð gríðarlega mengandi.
Um Laxar
„Sjálfbærni og ábyrgð eru meðal kjarnagilda okkar og við erum því hæstánægð að taka þátt í mótun á grænum orkugarði. Að nýta verðmætar hliðarafurðir eins og súrefni og nota þær til að skapa enn frekari verðmæti verður spennandi áskorun fyrir okkur og samstarfsfyrirtæki okkar,“ segir Jens Garðar Helgason, framkvæmdastjóri Laxa.
Um Síldarvinnslan
„Við leggjum áherslu á sjálfbæra nýtingu sjávarauðlindarinnar, þar sem leitast er við að nota nýjustu tækni sem völ er á til veiða og vinnslu. Við erum sífellt að leita leiða til að minnka kolefnisfótspor okkar, meðal annars með því að skipta út jarðefnaeldsneyti fyrir sjálfbærari orkugjafa. Þetta verkefni mun gera orkuskipti fýsilegri og verður vonandi til þess að framtíðin verði grænni en ella,“ segir Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar.