Það er skortur á orku en ekki orkuskortur
Íslenskt raforkukerfi er einstakt í heiminum. Hér rekum við lokað kerfi með 100% endurnýjanlegum orkugjöfum. Landsvirkjun, orkufyrirtæki þjóðarinnar, ber mikla ábyrgð, enda vinnum við rúm 70% þeirrar raforku sem hér er framleidd. Það er mikil kúnst að stýra svona kerfi þar sem náttúruöflin ráða því hversu mikla orku er hægt að vinna á hverju ári. Að mínum dómi hefur það gengið gríðarlega vel og Landsvirkjun hefur aldrei í sinni nær 60 ára sögu skert forgangsorku. Ég tel þó að það hafi verið farið aðeins frjálslega með hugtök í umræðunni um orkuskort undanfarið. Förum stuttlega yfir þetta.
Það er ekki orkuskortur þegar skerðanleg orka er skert í lélegum vatnsárum. (Það er eðlilegt, þess vegna heitir hún skerðanleg orka, er seld á lægra verði og er bara í boði þegar vatnsstaðan býður upp á umframorku).
Það er hins vegar orkuskortur þegar stærri fyrirtæki fá ekki afhenta forgangsorku sem hefur verið samið um eða þegar almenni markaðurinn sem sinnir heimilum og smærri fyrirtækjum fær ekki nægilega orku til að uppfylla þarfir þeirra.
Það er ekki orkuskortur þegar nýtt álver, gagnaver, metanólverksmiðja, landeldisfyrirtæki – fær ekki samning um eins mikla orku og það vill. Ef það héti orkuskortur, þá væri hann stöðugt ástand. Þá er og verður alltaf orkuskortur.