Stöndum við loforðin
Á morgun verðum við að standa við loforðin sem við gáfum í gær.
Árið 2024 er það heitasta í sögu mælinga. Útlit er fyrir að meðalhiti jarðar yfir árið verði 1,5°C meiri í ár en fyrir iðnbyltingu. Markmið heims er að halda hlýnun innan við 1,5°C frá þeim tíma, þetta er því áfall þó að vitað hafi verið í hvað stefndi. Það er sameiginlegt verkefni okkar allra að gera hvað við getum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og tilheyrandi raski á lofthjúpnum okkar allra, til að tryggja að þessar hitatölur verði ekki normið.
Við Íslendingar höfum, líkt og aðrar þjóðir, skuldbundið okkur til loftslagsaðgerða. Við höfum lofað að draga úr svokallaðri samfélagslosun um 41% til ársins 2030, miðað við árið 2005. Tíminn er vissulega naumur en þetta er samt hægt, við höfum nú þegar náð 11% samdrætti.
Það liggur skýrt fyrir hvaða athafnir okkar valda hve mikilli losun; 33% samfélagslosunar kemur frá vegasamgöngum, 22% frá landbúnaði og 17% frá fiskiskipum. Aðeins 7% koma frá orkuvinnslu sem er einstakt á heimsvísu. Aðrir flokkar vega enn minna. Bruni jarðefnaeldsneytis er ábyrgur fyrir helmingi samfélagslosunar okkar, 1,5 milljón tonnum árlega. Bruni þessarar olíu veldur ekki bara loftslagsáhrifum og loftmengun, heldur kostar þessi olía líka háar fjárhæðir eða um 65 milljarða kr. á ári hverju.
Við verðum að hætta að nota jarðefnaeldsneyti. Í stað þess þarf að koma meiri endurnýjanleg orka. Loftslagsmál verða ekki rædd af neinu viti án þess að ræða orkumál og umræðan hefur farið batnandi. Við vefengjum ekki lengur þau vísindi sem rökstyðja og staðfesta loftslagsbreytingar af mannavöldum. Við ræðum þess í stað til hvaða aðgerða við eigum að grípa til að sporna við þeim. Það er mikil framför og við skulum gæta þess að fara ekki í gamla farið.