Nýsköpun fyrir orkuskipti
Ríkarður Ríkarðsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaþróunar og nýsköpunar, fór með sendinefnd Íslands á loftslagsráðstefnuna COP29 fyrir hönd Landsvirkjunar.
Ríkarður tók þátt í pallborðsumræðum undir yfirskriftinni „Að nýta tækni og nýsköpun til að standa við skuldbindingar ríkisins í loftslagsmálum“ með Loftslagsaðgerðasamtökunum (Climate Action Coalition) á sýningarsvæði Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (UNFCCC).
Ríkarður rakti sögu orkuskipta á Íslandi, úr jarðefnaeldsneyti yfir í 100% endurnýjanlega orku, og sölu rafmagns til heimila og smærri fyrirtækja annars vegar og hins vegar orkufreks iðnaðar á borð við álver, gagnaver og fiskeldi á landi.
Hann lagði áherslu á að hlutverk stjórnvalda væri að stuðla að skilvirku leyfisveitingaferli, svo hægt yrði að anna sívaxandi eftirspurn eftir raforku, styðja við vöxt samfélagsins og tryggja um leið raforkuöryggi og fyrirsjáanleika fyrir heimili og atvinnulíf. Miklu máli skipti að samkeppnishæfir virkjunarkostir yrðu nýttir, samfélaginu til heilla.