Ný heimildamynd um Kröfluelda og Kröflustöð

23.12.2024Samfélag

„ ... og þá fyrst þorði ég að segja þetta opinberlega að það þyrfti að taka tillit til þess að hugsanlega væri Kröflueldstöðin að vakna til lífsins eftir rúmlega tveggja alda svefn“ - Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur.

KRAFLA

Umbrot og uppbygging

Krafla, umbrot og uppbygging

Heimildarmyndin Krafla, umbrot og uppbygging var framleidd af OB Films í Mývatnssveit fyrir Landsvirkjun árið 2024 í tilefni þess að 40 ár voru liðin frá lokum Kröfluelda.

Verkefnið var metnaðarfullt en afar mikilvægt til þess að varðveita og taka saman þær heimildir sem til eru frá þessum tíma.

Mikið af myndefni birtist hér í fyrsta sinn, viðtöl við fólkið á svæðinu sem upplifði þetta langa gostímabil og þurfti ítrekað að rýma heimili sín þegar mest lét. Íbúar á svæðinu fengu margir vinnu við að fylgjast með gosóróa og gáfu skýrslur til fjölmiðla á hverjum morgni.

„Þarna var greinilega sálin að vinna úr þessu einhvern veginn, ekki bara hjá mér heldur hjá mörgum öðrum þannig að ég held að áfallið hafi verið miklu meira en menn létu upp og viðurkenndu kannski fyrir sjálfum sér“

Ólafur Þröstur Stefánsson
Ólafur Þröstur Stefánsson

Þetta rifjar Ólafur Þröstur Stefánsson, mývetningur, upp en eldgosahrinan við Grindavík hefur hrært upp ótal minningar og tilfinningar hjá þeim sem muna eftir Kröflueldum.

Í myndinni er rætt við Ólaf, Jón Árna Sigfússon, Birki Fanndal Haraldsson, Júlíus Sólnes og Ásdísi Illaugadóttur, mývetninga ásamt Páli Einarssyni jarðeðlisfræðing.

Við þökkum þeim, og öllum sem lögðu til upplýsingar, sögur, ljósmyndir og myndefni, kærlega fyrir aðstoðina.

Frumsýnd á goslokahátíð

Landsvirkjun, ásamt sveitarfélögunum í nágrenni við Kröflustöð tóku höndum saman haustið 2024 og efndu til goslokahátíðar.

Myndin var frumsýnd í Kröflustöð við góðar undirtektir heimamanna og starfsfólks.

Frumsýning í Kröflustöð, september 2024
Frumsýning í Kröflustöð, september 2024