Upprunaábyrgðir flýta orkuskiptum
Tinna Traustadóttir framkvæmdastjóri Sölu og þjónustu var fyrst í pontu en erindi hennar bar heitið Upprunaábyrgðir flýta orkuskiptum. Hún rakti hvernig sala upprunaábyrgða, með auknum tekjum fyrir Landsvirkjun, styður við aukna orkuvinnslu okkar og ýtir þar með undir nauðsynleg orkuskipti.

Tinna benti á að vinnsla á endurnýjanlegri orku í heiminum þyrfti að áttfaldast, samkvæmt Alþjóðaorkumálastofnuninni. Ein leiðin til að hvetja til aukinnar vinnslu á endurnýjanlegri orku felst í evrópsku kerfi upprunaábyrgða sem 28 lönd eiga aðild að. Sambærileg kerfi er þegar að finna víða um heim. Í upprunaábyrgðakerfinu jafngildir hver ein framleidd megavattstund af endurnýjanlegri orku einni upprunaábyrgð. Hugmyndafræðin er sú að fyrirtæki sem vinnur endurnýjanlega orku fái hærra verð fyrir orkuna en ella. Upprunaábyrgð er sjálfstæð vara, óháð því hvar og hvenær raforkan er afhent og heimilum og fyrirtækjum er í sjálfsvald sett hvort þau kaupa upprunaábyrgðir.
Kaupendur upprunaábyrgða hafa ýmsar ástæður fyrir ákvörðun sinni: Þeir vilja t.d. leggja baráttunni gegn loftslagsbreytingum lið eða sjá sér hag að fá vottun af markaðslegum ástæðum. Stærstur hluti upprunaábyrgðanna vegna orkuvinnslu Landsvirkjunar er seldur erlendis.
Landsvirkjun afhendir upprunaábyrgðir ekki lengur endurgjaldslaust í heildsölu. Tinna sagði að ein ástæða þess væri sú að eftir því sem verðmætið ykist og kerfið yrði meira að umfangi yxi hættan á að litið væri á slíkt sem ólögmætan ríkisstyrk.
Fjölmörg íslensk fyrirtæki kaupa upprunaábyrgðir. Tinna tók dæmi af meðalstóru iðnfyrirtæki sem greiðir um 3 milljónir á mánuði fyrir raforku. Með upprunaábyrgð bætast við 75 þúsund kr. Kostnaður meðalstórs heimilis gæti aukist um 140 kr. á mánuði.