
Enginn neyðist til að kaupa upprunaábyrgð grænnar raforku. Einn kaupir kannski slíka ábyrgð til að taka af öll tvímæli um að hann noti raforku sem unnin er úr endurnýjanlegum auðlindum; annar kaupir upprunaábyrgð af því að hann vill hvetja til enn frekari vinnslu grænnar orku. Raforkureikningur meðalstórs heimilis gæti hækkað um 140 kr. á mánuði í ár við kaup á upprunaábyrgðum og reikningur fremur stórs fyrirtækis um ríflega 2%. Svo eru það hinir sem ákveða að halda sig við fyrri kosti og velja sér þá raforkusala sem selja raforkuna án upprunaábyrgða. Hver og einn velur samkvæmt eigin hagsmunum og skoðunum.
Raforkuverð á Íslandi til almennings og fyrirtækja hefur verið lágt og stöðugt alla tíð. Ákvörðun Landsvirkjunar um að láta upprunaábyrgðir ekki lengur fylgja með í heildsölu breytir engu þar um. Upphrópanir um mikla hækkun raforkuverðs vegna ákvörðunar okkar, jafnvel frá fyrirtækjum sem sjálf vinna sína raforku, eru fullkomlega rakalausar og óskiljanlegar.