Lánshæfiseinkunnin er nú BBB+
Matsfyrirtækið S&P Global Ratings hefur hækkað lánshæfiseinkunn Landsvirkjunar um einn flokk í BBB+ úr BBB með stöðugum horfum.
Hækkun á lánshæfiseinkunninni endurspeglar mat S&P á sterkari fjárhagsstöðu fyrirtækisins. Vel hafi gengið að takast á við þær áskoranir og það krefjandi tímabil sem fylgdi heimsfaraldrinum á síðasta ári.
Mikil áhersla hefur verið lögð á að styrkja fjárhagsstöðu Landsvirkjunar sl. áratug og hækka lánshæfiseinkunnina. Skuldir hafa lækkað mikið og fjárhagsleg áhætta minnkað. Á sama tímabili hefur Landsvirkjun byggt þrjár nýjar aflstöðvar og raforkuvinnsla aukist. Viðskiptavinahópur fyrirtækisins hefur stækkað og fjölbreytnin aukist. Jafnframt hefur tekist vel til við endursamninga við eldri viðskiptavini.
Eigandi fyrirtækisins, íslenska ríkið, hefur sýnt Landsvirkjun stuðning í þessari vegferð og lengst af hafa arðgreiðslur verið lágar. Með sterkari fjárhagsstöðu hefur svigrúm til að greiða hærri arðgreiðslur aukist. Árið 2018 greiddi fyrirtækið til að mynda 1,5 milljarð íslenskra króna í arðgreiðslur til eigandans en árið 2020 nam arðgreiðslan 10 milljörðum króna.
Rafnar Lárusson, framkvæmdastjóri Fjármála og upplýsingatækni:
„Við hjá Landsvirkjun fögnum þessari hækkun á lánshæfiseinkunn. Frá 2014 hefur einkunnin hækkað um fjóra flokka. Við erum nú með sambærilega einkunn og helstu raforkufyrirtæki á Norðurlöndum, sem við berum okkur saman við. Það er áfangi sem við höfum unnið markvisst að um langa hríð. Þessi bætta fjárhagsstaða gerði fyrirtækinu kleift að takast á við áskoranir heimsfaraldursins með góðum árangri og við gátum stutt við viðskiptavini okkar. Reksturinn hefur tekið vel við sér á þessu ári og mörg jákvæð teikn á lofti. Við horfum björtum augum fram á veginn og ætlum áfram að styrkja fjárhagsstöðu fyrirtækisins til hagsbóta fyrir eigendurna, sem eru landsfólk allt.“