Mikilvægt samstarf reynslumikilla fyrirtækja
Framleiðsla rafeldsneytis er tæknilega flókin og á nýju sviði fyrir Landsvirkjun. Því er mikilvægt að taka höndum saman með fyrirtæki eins og Linde, sem býr yfir yfirgripsmikilli þekkingu innan efnaiðnaðar, vetnisframleiðslu með rafgreiningu og reksturs grænna iðngarða.
Fyrirtækin byggja á mikilli reynslu sem spannar áratugi, Landsvirkjun á sviði endurnýjanlegrar, grænnar orku og Linde á sviði gas- og efnaiðnaðar. Linde er leiðandi alþjóðlegt gas- og verkfræðifyrirtæki með starfsemi í yfir 100 löndum.
Jafnframt er Linde með starfsemi á Íslandi, t.a.m. súrefnis-, nitur- og koldíoxíðframleiðslu ásamt áfyllingarstöð.
Ríkarður Ríkarðsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaþróunar og nýsköpunar hjá Landsvirkjun:
„Við fögnum þessum samstarfssamningi við Linde sem gerir okkur vel í stakk búin að þróa áfram verkefni sem miða að framleiðslu rafeldsneytis fyrir samgöngur og aðra notendur nýrrar orkuskiptatækni fyrir árið 2025.
Þróun rafeldsneytisverkefna er afar krefjandi verkefni sem krefst þekkingar, reynslu og þrautseigju. Bæði fyrirtækin búa að þessum kostum og geta tryggt að tækni-, skipulags-, umhverfis- og öryggismál verði vel útfærð.“
Daniel Mateos, yfirmaður viðskiptaþróunar Linde í N-Evrópu:
„Við hlökkum til að vinna með Landsvirkjun og hjálpa Íslandi við að ná metnaðarfullum markmiðum sínum í loftslagsmálum.
Linde og Landsvirkjun stefna að því að gegna lykilhlutverki í orkuskiptum á Íslandi. Samanlagður styrkur og sérfræðiþekking beggja fyrirtækja í gegnum alla virðiskeðjuna, allt frá endurnýjanlegri orku til hreins eldsneytis, mun leggja grunn að öruggu og áreiðanlegu framboði á hreinu vetni og rafeldsneyti.“