Hvað kostar rafmagnið og af hverju?

23.12.2024Orka

Grein eftir Tinnu Traustadóttur, framkvæmdastjóra sviðs Sölu og þjónustu.

Hvað kostar rafmagnið og af hverju?

Þegar umræða kviknar um raforkuverð er eðlilegt að fólk líti fyrst til Landsvirkjunar, stærsta orkufyrirtækis landsins og í eigu þjóðarinnar allrar. Það er þó alls ekki svo að hjá Landsvirkjun sé að finna upphaf og endi vinnslu, dreifingar og verðlags á raforku á Íslandi.

Kerfið okkar á Íslandi er einstakt. Við vinnum raforku úr 100% endurnýjanlegum orkugjöfum, vatnsafli, jarðvarma og fljótlega bætist vindorkan við. Sex fyrirtæki vinna raforku hér á landi, samtals um 20 terawattstundir á ári. Af því renna 16 TWst beint um flutningskerfi Landsnets til stórnotenda (álvera, kísilmálmverksmiðja, fiskeldisfyrirtækja, gagnavera o.fl.) en um 4 TWst fara á heildsölumarkað. Þar kaupa níu smásölufyrirtæki orku og selja áfram til heimila og allra almennra fyrirtækja og stofnana, sem geta valið hvaða smásala þau skipta við. Fimm dreifiveitur, hver á sínu landsvæði, sjá um að koma raforkunni af heildsölumarkaði í innstungur kaupenda. Landsvirkjun er eina orkufyrirtækið sem starfar ekki líka á smásölumarkaði og selur því ekki beint til heimila og smærri fyrirtækja, en selur um helming þeirrar orku sem sá markaður þarf.

Margt hefur áhrif á verðið

Margt hefur áhrif á raforkuverð. Raforkuverð í dag er afleiðing ákvarðana fortíðar. Alþingi setti raforkulög og skilgreindi raforku sem markaðsvöru og því er verði hennar ekki miðstýrt heldur ræðst það af aðstæðum á markaði.

Uppbygging raforkukerfisins er sá þáttur sem mest áhrif hefur á raforkuverð. Nýting hagkvæmra virkjunarkosta, traust flutningsgeta og tímanlegar fjárfestingar eru þar lykilþættir. Við Íslendingar leystum allt þetta vel af hendi áratugum saman enda hefur raforkuverð hér á landi verið lágt og stöðugt. Þetta er það grunnkerfi sem allt annað byggir á.

Til skemmri tíma hafa hins vegar ýmsir aðrir þættir líka áhrif á raforkuverðið. Náttúruhamfarir hafa sett orkuvinnslu úr skorðum. Innrennsli í lón á stærsta athafnasvæði Landsvirkjunar, Þjórsár- og Tungnaársvæðinu, hefur verið í sögulegu lágmarki undanfarin misseri og það takmarkar raforkuvinnsluna. Enginn fær ráðið við slíka duttlunga náttúrunnar.

Aukin eftirspurn hefur að sjálfsögðu líka áhrif á raforkuverð. Núna eru íbúar landsins 50 þúsund fleiri en þeir voru fyrir áratug, sem kallar á meiri orku fyrir heimili og atvinnustarfsemi. Við höfum líka hafist handa við orkuskipti og ætlum okkur að ljúka þeim á næstu árum og áratugum.

Vandi okkar nú er sá að uppbygging raforkukerfisins hefur ekki fylgt þörfum vaxandi samfélags. Flutningskerfi raforku hefur líka verið nánast óbreytt í hálfa öld og á ári hverju tapast veruleg orka því ekki er hægt að flytja hana milli landshluta.

Ekki hefur verið hafist handa við byggingu stórrar aflstöðvar í tæpan áratug, þann sama áratug og íbúum hefur fjölgað um 50 þúsund. Við hjá Landsvirkjun höfum ítrekað bent á að orkuþörfin færi óhjákvæmilega fram úr orkuvinnslugetunni ef ekkert væri að gert. Orkustofnun, Landsnet, Samorka og fleiri aðilar hafa staðfest það mat okkar, en samt erum við nú í þessum sporum.

Sölufyrirtækin tryggja sig fram í tímann

Nokkuð hefur borið á frásögnum af mikilli verðhækkun á raforku og stundum talað um tugi prósenta í því sambandi.

Þegar horft er aftur í tímann hefur verð á forgangsorku Landsvirkjunar í heildsölu lækkað að raunvirði frá því að ný raforkulög voru sett 2003 og samkeppni hófst á þeim markaði. Sölufyrirtækin hafa tryggt sér orku langt fram í tímann, t.d. nær alla orku sem þau þurfa út 2025 skv. Orkustofnun, svo tímabundnar verðsveiflur hafa ekki mikil áhrif á heildarverð.

Landsvirkjun selur ekki raforku á smásölumarkaði. Á þeim markaði hefur líka orðið raunlækkun frá setningu raforkulaga, enda hefur Eurostat, hagstofa Evrópusambandsins, staðfest að lægsta raforkuverð til heimila í aðildarríkjum ESB og á EES-svæðinu er á Íslandi.

Á smásölumarkaði hefur raforka til heimila og smærri fyrirtækja hækkað frá október á síðasta ári um 9-37%, eftir sölufyrirtækjum, skv. greiningu ASÍ. Hækkun á raforkuverði þýðir hins vegar ekki samsvarandi hækkun á raforkureikningi heimila og fyrirtækja. Raforkuverðið sjálft er 30% af heildarupphæðinni, flutningur og dreifing um 50% og opinber gjöld um 20%. Samsetning raforkureiknings er að vísu með öðrum hætti þar sem ekki nýtur við hitaveitu til húskyndingar, en þetta er meginreglan hjá flestum notendum á landinu.

Frá 2023 til 2024 hækkaði kostnaður við flutning og dreifingu raforku um 8% og opinber gjöld um 6%. Hjá meðalheimili þýddu þessar hækkanir samtals 6 þúsund kr. meiri raforkukostnað á ári. Rafmagnið sjálft hækkaði um 2 þúsund kr. til viðbótar. Eru þessar upplýsingar fengnar frá verkfræðistofunni EFLU. Það er því ekki sanngjarnt að beina sjónum eingöngu að orkufyrirtækjum þegar rafmagnsreikningur heimilanna hækkar.

Tryggjum orkuöryggi almennings

Við hjá Landsvirkjun höfum ítrekað bent á að ef ekki verði brugðist við skjótt til að tryggja nægt orkuframboð gætu mál þróast á þann óheillahátt að heimili og almenn fyrirtæki þyrftu að keppa við stórnotendur um orkuna. Þá stöðu eigum við auðvitað að forðast, enda kæmi hún öllum illa.

Orkufyrirtæki þjóðarinnar hefur aukið hlutdeild sína á almenna markaðnum. Landsvirkjun ræður samt ekki við að grípa allan vöxt almenna markaðarins á meðan orkuframboð eykst ekki. Stjórnvöld verða að grípa inn í og tryggja orkuöryggi almennings.

Á Íslandi höfum við byggt upp gott kerfi sem hefur tryggt stöðugt og lágt raforkuverð fyrir almenning. Það er löngu tímabært að stækka og bæta það kerfi. Landsvirkjun mun ekki skorast undan ábyrgð.