Grænn farvegur fjárfestinga

23.09.2020Fjármál

Mikil umframeftirspurn í milljarða skuldabréfaútboði Landsvirkjunar.

Signý Sif Sigurðardóttir, forstöðumaður fjárstýringar hjá Landsvirkjun og Jóhanna Harpa Árnadóttir, verkefnastjóri samfélagsábyrgðar hjá fyrirtækinu, segja Landsvirkjun fremsta í flokki þeirra fyrirtækja sem gefa út græn skuldabréf.
Signý Sif Sigurðardóttir, forstöðumaður fjárstýringar hjá Landsvirkjun og Jóhanna Harpa Árnadóttir, verkefnastjóri samfélagsábyrgðar hjá fyrirtækinu, segja Landsvirkjun fremsta í flokki þeirra fyrirtækja sem gefa út græn skuldabréf.

Landsvirkjun hefur gefið út græn skuldabréf fyrir 150 milljónir Bandaríkjadollara, eða rúmlega 20 milljarða króna. Þetta er í annað skiptið sem fyrirtækið gefur út græn skuldabréf og líkt og í fyrra skiptið var eftirspurn margföld.

Græn skuldabréf gefa fjárfestum kost á að finna fjárfestingum sínum grænan farveg, þ.e. styðja við verkefni sem hafa jákvæð umhverfisáhrif. Um leið tryggja þau að fyrirtækin sem gefa skuldabréfin út setji sér skýr markmið, velji vel þau verkefni sem ráðist er í og fylgi áætlunum sínum skipulega og þétt eftir.

Landsvirkjun gaf fyrst íslenskra fyrirtækja út græn skuldabréf árið 2018. Þá var sá rammi settur um útgáfuna, að fjármögnunin yrði nýtt til afmarkaðra, nýrra verkefna eða endurfjármögnunar verkefna sem ekki máttu ná lengra aftur en 3 ár. Fjármunirnir í skuldabréfaútgáfunni 2018 voru nýttir til að fjármagna umhverfisvæna orkuvinnslu í jarðhitastöðinni á Þeistareykjum og vatnsaflsstöðinni Búrfelli II.

„Við höfum uppfært græna fjármögnunarramma fyrirtækisins og beitum nú nýrri nálgun á græna fjármögnun,“ segir Signý Sif Sigurðardóttir, forstöðumaður fjárstýringar á fjármálasviði Landsvirkjunar. „Landsvirkjun er grænt fyrirtæki eða það sem kallast á ensku „pure play“, þar sem allt sem við gerum miðast að því að vinna orku á umhverfisvænan og sjálfbæran hátt. Í græna rammanum skilgreinum við grænar eignir á efnahagsreikningi okkar, og gefum út græna fjármögnun sem fjármagnar eða endurfjármagnar grænar eignir. Þessi nálgun hentar Landsvirkjun mjög vel, því nánast allar okkar eignir styðja við framleiðslu á endurnýjanlegri orku og teljast grænar, t.d. allar aflstöðvarnar sem vinna græna orku úr vatni, jarðhita og vindi.“

Söluverð grænu skuldabréfanna fer til að endurfjármagna eldri skuldir, auk þess að styrkja lausafjárstöðu fyrirtækisins. Rétt er að taka fram að Landsvirkjun nýtir ekki ríkisábyrgð fyrir nýja langtímafjármögnun og hefur ekki gert frá 2011.

Styðjum markmið annarra

Landsvirkjun er fremst í flokki þeirra fyrirtækja, sem nú feta þessa leið, þ.e. að gefa út græn skuldabréf til að fjármagna almennan rekstur. „Við þekkjum til tveggja annarra fyrirtækja í heiminum sem hafa farið í slíkar útgáfur. Annað starfar á sviði endurvinnslu og hitt hreinsar fráveituvatn,“ segir Jóhanna Harpa Árnadóttir, verkefnisstjóri samfélagsábyrgðar hjá Landsvirkjun. „Það er leitun að fyrirtæki eins og Landsvirkjun sem fer jafn kerfisbundið yfir öll mál hjá sér til að finna ávallt bestu lausnina. Verkefni okkar styðja líka við markmið annarra. Íslensk stjórnvöld hafa sett sér markmið um kolefnishlutleysi árið 2040. Landsvirkjun, sem er auðvitað í eigu þjóðarinnar, ætlar að ná því markmiði í starfi sínu árið 2025 og leggur þannig mikið af mörkum til að markmið stjórnvalda náist.“ Aðgerðaáætlun Landsvirkjunar um kolefnishlutleysi miðar að því að fyrirbyggja nýja kolefnislosun, minnka núverandi losun og mótvægisaðgerðir sem snúa m.a. að landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis.

Í alþjóðlegu samhengi þá fellur þessi nýja skuldabréfaútgáfa vel að stuðningi Landsvirkjunar við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og þá sérstaklega stuðningi við Heimsmarkmið 7 sem snýr að sjálfbærri orku en einnig Heimsmarkmið 13 um aðgerðir í loftslagsmálum. Jóhanna nefnir að „á árinu hefur Landsvirkjun enn frekar unnið að því að fella Heimsmarkmiðin inn í stefnumótun fyrirtækisins.“

Nánari upplýsingar um græna skuldabréfaútboðið er að finna í tilkynningu Landsvirkjunar til Kauphallar.