Samstarfsverkefni um orkuskipti og orkutengda nýsköpun
Samstarfsverkefni á grunni hringrásarhagkerfis, orkuskipta og nýsköpunar á Austurlandi, sem hlotið hefur nafnið Eygló, var stofnað formlega í gær, fimmtudaginn 2. febrúar. Skrifað var undir samstarfssamning þess efnis í Fljótsdalsstöð milli Landsvirkjunar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins, Austurbrúar og sveitarfélaga á Austurlandi; Múlaþings, Fjarðarbyggðar, Fljótsdalshrepps og Vopnafjarðarhrepps. Heitið Eygló vísar til öflugasta orkugjafans, sólarinnar, og til bjartrar og kraftmikillar framtíðar. Verkefnið er til fjögurra ára og nemur fjárframlag stofnaðila alls 240 milljónum króna.
Meginmarkmið Eyglóar er að efla nýsköpun og þróun, með áherslu á að bæta nýtni hliðarstrauma og flétta þá inn í nýja verðmætasköpun. Þetta styður við vöxt sprotafyrirtækja og fjölgar tækifærum til þátttöku í alþjóðlegum rannsókna- og þróunarverkefnum í samstarfi við fyrirtæki á svæðinu. Eygló er fjórða svæðisbundna samstarfsverkefnið sem Landsvirkjun og samstarfsaðilar hafa komið á fót, en fyrir eru Eimur á Norðurlandi, Orkídea á Suðurlandi og Blámi á Vestfjörðum.