„Afkoma ársins var betri en áður í sögu Landsvirkjunar. Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði, sem er sá mælikvarði sem við lítum helst til þegar afkoma fyrirtækisins er skoðuð, var 44,9 milljarðar króna og hækkaði um ríflega 72% á milli ára í bandaríkjadal talið. Rekstrartekjur jukust um rúm 25% frá árinu 2021, þegar þær voru þó meiri en nokkru sinni fyrr. Rekstrarniðurstaða ársins 2022 er því einstök í 58 ára sögu fyrirtækisins.
Þennan árangur má einkum rekja til skýrra rekstrarmarkmiða og endursamninga við flesta stærstu viðskiptavini á síðustu árum, en þeir borga nú raforkuverð sem er sambærilegt við það sem borgað er í löndum sem við berum okkur helst saman við. Rekstrarumhverfi stórnotenda var einnig almennt hagstætt á árinu og óhætt er að segja að velgengni þeirra og Landsvirkjunar haldist að miklu leyti í hendur. Meðalverð til stórnotenda án flutnings var tæplega 43 bandaríkjadalir á megavattstund og hefur aldrei verið hærra.
Áfram héldum við á þeirri braut að lækka skuldir. Nettó skuldir lækkuðu um rúmlega 93 milljarða króna (657 milljónir bandaríkjadala) frá upphafi árs. Nú er svo komið að lykilmælikvarðinn nettó skuldir/EBITDA er afar hagstæður í samanburði við systurfyrirtæki okkar á Norðurlöndunum, en hreinar skuldir eru nú aðeins um 1,85-faldur rekstrarhagnaður fyrir afskriftir. Með þessari bættu skuldastöðu hefur arðgreiðslugeta Landsvirkjunar aukist og mun stjórn fyrirtækisins leggja til við aðalfund um 20 milljarða kr. (140 milljóna bandaríkjadala) arðgreiðslu vegna síðasta árs.
Þrátt fyrir þessa góðu afkomu fyrirtækisins og góðar rekstrarhorfur má segja að um þessar mundir séu ákveðnar blikur á lofti í orkumálum þjóðarinnar. Orkukerfi Landsvirkjunar er nálægt því að vera fulllestað, bæði með tilliti til afls og orku. Eftirspurn eftir grænni raforku er mikil, bæði frá núverandi viðskiptavinum og áhugaverðum nýjum aðilum. Við getum því miður ekki mætt þessari eftirspurn nema að takmörkuðu leyti og höfum því þurft að segja nei við ýmsum áhugaverðum og vænlegum verkefnum sem falast hafa eftir rafmagnssamningum.
Við vinnum nú að því að afla tilskilinna leyfa fyrir frekari uppbyggingu orkuvinnslu, sem við höfum undirbúið í ár og áratugi. Þannig viljum við tryggja samfélaginu nægt rafmagn til orkuskipta og bættra lífsgæða í framtíðinni, ekki síst í ljósi metnaðarfullra markmiða stjórnvalda í loftslagsmálum.
Undir lok árs náðust samningar um að ríkið keypti eignarhlut Landsvirkjunar í Landsneti. Þeir samningar voru ánægjulegir, enda hefur Landsvirkjun lengi talað fyrir breytingum á eignarhaldi Landsnets og bent á að óheppilegt væri að fyrirtæki sem hefði einkaleyfi á flutningi raforku og kerfisstjórnun væri í eigu orkuvinnslufyrirtækja og dreifiveitna.
Rekstur aflstöðva gekk vel á árinu, en mikið reyndi á starfsfólk fyrirtækisins vegna tíðra óveðra og dræms innrennslis til lóna og á það þakkir skildar fyrir ósérhlífni og fagleg vinnubrögð við erfiðar aðstæður.“